Auglýsing

Opið bréf til ríkisstjórnar Íslands – Áskorun á yfirvöld frá íslenska tónlistargeiranum

Áskorun SAMRÁÐSHÓPS TÓNLISTARIÐNAÐARINS til stjórnvalda um afléttingu á eins metra reglu á tónlistarviðburðum:

„Föstudaginn 28. janúar s.l. kynntu stjórnvöld afléttingar á samkomutakmörkunum og afléttingaráætlun til 14. mars n.k. Það olli okkur í tónlistariðnaðinum miklum vonbrigðum að regla um eins metra fjarlægðarmörk á milli óskyldra aðila félli ekki niður með öðrum breytingum sem tóku gildi á miðnætti 29. janúar. Einnig vakti það furðu að ekki væri gert ráð fyrir niðurfellingu á þessari reglu í næsta skrefi sem tekið verður þann 24. febrúar n.k.. Staðreynd málsins er sú að á meðan eins metra reglan er í gildi, kemst íslenskt tónleikahald ekki af stað, burtséð frá öðrum reglum og stærð hólfa. Hólfaskiptingin ein og sér dregur úr sætaframboði en með eins metra reglunni er tónleikahald í raun fyrirfram dauðadæmt.

Í 500 manna sal er aðeins hægt að taka á móti 300-350 gestum, í 1.000 manna sal aðeins um 6-700 gestum og í 1.500 manna sal aðeins um 900-1000 gestum. Það er ekki fjárhagslega gerlegt að að undirbúa og halda tónleika þegar svo stór hluti af sætafjölda er óseljanlegur. Janúar og febrúar eru dauðir og farnir og nú miðar allur tónlistariðnaðurinn við að komast af stað í mars. Marsmánuður er þéttbókaður í öllum sölum landsins fyrir tónleika sem búið er að fresta í tvö ár og flestir salir landsins eru þéttbókaðir út árið – og raunar vel fram á næsta ár fyrir alla hina tónleikana sem búið er að fresta í gegnum allan faraldurinn. Það væri hreint út sagt afleitt ef tónleikageirinn myndi nú neyðast til þess að fella einnig niður alla viðburði í marsmánuði. Það er ekki auðséð hvernig koma ætti þeim viðburðum fyrir, í þeim þéttbókuðu mánuðum sem á eftir koma og allt eins líklegt að aflýsa þyrfti þeim viðburðum alfarið.

Á næstu 10 – 14 dögum þurfa tónleikahaldarar að taka ákvörðun um hvort þeir sjái sér fært að halda tónlistarviðburði í mars, því enginn hefur efni á að setja vinnuna af stað og stofna til kostnaðar og skuldbindinga sem tapast svo að miklu eða öllu leyti ef fresta þarf enn einu sinni. Það blasir við að geti tónleikahaldarar ekki verið fullvissir um að viðburður geti farið fram neyðast þeir til að fresta, því enginn getur tekið áhættuna og vonað það besta. Við teljum að það sé gengið of langt með að viðhalda eins metra reglunni í skipulögðu viðburðahaldi á meðan verið er að taka stór skref í því að afnema hömlur alls staðar annars staðar í samfélaginu.

Vilji stjórnvalda á þessum tímapunkti er greinilega að opna samfélagið aftur og hleypa hlutum af stað, en eins metra reglan takmarkar allt tónleikahald og engar áætlanir eru í hendi varðandi hvenær eins metra reglunni í viðburðahaldi verður aflétt. Á það skal bent að allir gestir sitja í föstum númeruðum sætum, hólfaskipt á stærri viðburðum, allir gestir snúa í sömu átt, eru skráðir á kennitölur og bera grímur. Jafnframt er enn óheimilt að selja áfenga drykki á skipulögðum viðburðum á sama tíma og krár mega vera með opið til miðnættis.

Ljóst er samkvæmt þessu að jafnvel þótt eðlilegt sé að eins metra reglan gildi áfram þar sem ótengdir koma saman, er staðan allt önnur og betri á skipulögðum tónleikum. Að lokum er rétt að benda á að í gegnum allan faraldurinn hafa tónleikahaldarar og tónlistarmenn þó sýnt mikla ábyrgð og ávallt fylgt ítrustu tilmælum yfirvalda og munu gera áfram. Í ljósi alls þessa skorar SAMRÁÐSHÓPUR TÓNLISTARINNAR á stjórnvöld að falla frá eins metra reglunni þegar í stað á skipulögðum viðburðum.“

Fyrir hönd Samráðshóps tónlistariðnaðarins:

Gunnar Hrafnsson, FÍH Ásmundur Jónsson og Eiður Arnarsson, FHF Guðrún Björk Bjarnadóttir, STEF Gunnar Guðmundsson, SFH María Rut Reynisdóttir og Anna Rut Bjarnadóttir, Tónlistarborgin Reykjavík Svanhildur Konráðsdóttir, Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús Ísleifur Þórhallsson, Sena Live og Bandalag íslenskra tónleikahaldara Bragi Valdimar Skúlason, FTT og STEF Þórunn Gréta Sigurðardóttir, Tónskáldafélag Íslands Sigtryggur Baldursson og Bryndís Jónatansdóttir, ÚTÓN Valgerður G. Halldórsdóttir, Tónverkamiðstöð Hallveig Rúnarsdóttir, FÍT – klassísk deild FÍH.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing