Oscar Leone gaf á dögunum út nýtt lag og myndband. Lagið, sem ber heitið Lion, er nú þegar orðið eitt mest spilaða lagið á Rás2.
,,Lagið samdi ég í einhverju sjálfsvorkunnarkasti þótt það sé erfitt að trú því við fyrstu hlustun. Lagið er hljómþýtt og fullt af spígsporandi jákvæðni sem auðvelt er að syngja með. Efnistökin sjálf, sem eru nokkuð þung þar sem verið er að gera upp erfiðar tilfinningar, eru í raun í bullandi andstæðu við létta sumarlega tónlistina, hún er í amerískum folk-poppstíl en sækir einnig mikið í indírokk og gospell. Lagið er, eins og svo oft áður, um stúlku og viðskilnað okkar.“
,,Á þessum tíma fannst mér hún hafa veðjað á rangan hest en nú eru þrjú ár liðin síðan ég samdi lagið og ég treysti almættinu alveg fyrir ákvörðun hennar. Ég trúi ekki að neinar tilviljanir enda fæddist þetta lag upp sambandsslitunum og öðrum erfiðum samskiptum sem ég átti í á þessum tíma,“ segir Oscar.
,,Lifandi flutningur er í höndum hljómsveitar sem skipuð er af miklu hæfileikafólki. Það eru þau Kristján Gilbert á gítar (sem hefur verið mín hægri hönd frá byrjun), Íris Lóa Eskin sem syngur með mér, Hálfdán Árnason á bassa, Jón Valur sem grípur í öll þau hljóðfæri sem hugsast getur og Kristófer Nökkvi Sigurðsson á trommur. Fylgist með á samfélagsmiðlum til að sjá hvenær næstu tónleikar verða haldnir. Artworkið er í höndum Tómasar Lemarquis sem er góður vinur minn. Honum er margt til lista lagt. Okkur langaði að gera eitthvað saman og ekki taka því of hátíðlega. Húmorinn aldrei langt undan.“
Anton Ingi Sigurðsson leikstýrir myndbandinu en Gunnar Auðunn Jóhannsson skaut það í gömlu síldarvinnslunni á Djúpavík.