Tæplega 90.000 áhorfendur á lokaathöfn Ólympíuleikanna sem fór fram í gærkvöldi á Stade de France höfðu ekki hugmynd um að ein stærsta Hollywood-stjarna síðari tíma myndi stökkva af þaki leikvangsins og síga niður við þematónlistina úr Mission Impossible en sú varð heldur betur raunin.
Líkt og sést á myndskeiðinu hér fyrir neðan má sjá að Tom Cruise er engan veginn lofthræddur en hann er þekktur fyrir að leika flest sín áhættuatriði sjálfur og lokaathöfn Ólympíuleikanna var þar engin undantekning. Mikill stjörnufans einkenndi lokaathöfnina og er það eflaust vegna þess að enginn önnur en „Borg Englanna“ eða Los Angeles kemur til með að hýsa næstu keppni sem fer fram árið 2028.
Hollywood-atriði fyrir allan peninginn!
Eftir að bandaríska tónlistarkonan H.E.R. hafði lokið við að syngja þjóðsöng Bandaríkjanna ómaði þematónlist Mission Impossible-kvikmyndaseríunnar um allan leikvanginn og Hollywood-stjarnan, sem hefur sótt Ísland oftar en einu sinni, sást standa ofan á þaki Stade De France sem er hvorki meira né minna en 42 metrar að hæð.
Þegar Tom Cruise lenti á leikvanginum sjálfum hljóp hann upp á svið og tók við fána Ólympíuleikanna úr hendi Karen Bass sem er borgarstjóri Los Angeles og átti það að tákna afhendingu kyndilsins frá París til hinnar amerísku borgar – sem, eins og áður kom fram, er sú borg sem heldur Ólympíuleikanna eftir 4 ár.
Það þarf ekkert að fara mörgum orðum um það sem gerðist næst. Horfið á myndskeiðið sem fylgir – Los Angeles þýðir Hollywood og Hollywood þýðir tæknibrellur og kvikmyndir. Útkoman er vægast sagt stórkostleg en á meðan allt þetta gekk á þá heyrðist í hljómsveitinni Red Hot Chilipeppers en sveitin var stofnuð í borg englanna árið 1983.