Bloggarinn Páll Vilhjálmsson sakar Heimildina um hræsni í nýrri færslu sinni. Eftir að Heimildin birti frétt um svokallaðar þöggunarmálssóknir og hvernig þær séu „tilræði gegn lýðræði og tjáningarfrelsi“. Slíkar málsóknir eru nefndar SLAPP á ensku.
Tilgangur SLAPP málsókna er samkvæmt Heimildinni að:
„mynda málsóknir sem notaðar eru gegn fjölmiðlum og öðrum „varðhundum almennings“ með þeim ásetningi að koma í veg fyrir eða hamla frjálsri umfjöllun um mál sem varða almannahag.”
Páll segir í færslu sinni að Heimildin ætti að líta sér nær.
“Ritstjórinn, Þórður Snær, og tveir blaðamenn stefndu tilfallandi bloggara fyrir dóm, ekki einu sinni heldur tvisvar, fyrir það eitt að fjalla um aðkomu blaðamanna að byrlunar- og símastuldsmálinu. “
Þarna er Páll að vísa í mál Páls Steingrímssonar skipstjóra, sem var hætt kominn eftir byrlun sem fyrrverandi eiginkona Páls (Steingrímssonar) hefur játað að bera ábyrgð á. Páll (Vilhjálmsson) hefur skrifað fjölda pistla þar sem hann fjallar um mál nokkurra blaðamanna sem bera stöðu sakbornings í málinu og fjallar um meinta aðkomu blaðamanna að málinu.
„Frá ríkisfjölmiðlinum fóru gögnin til Þórðar Snæs á Kjarnanum og Aðalsteins á Stundinni, sem birtu fréttir með vísun i gögnin.”
Páll segir að brýnt sé að upplýsa allar hliðar málsins og segir trúverðugleika fjölmiðla og blaðamanna að veði. Hann sakar einnig fjölmiðla um þöggun og meðvirkni.
“Fjölmiðlar þegja í stéttvísri meðvirkni með blaðamönnum. Bloggari tekur málið upp og fjallar um það. Hvað gerist? Jú, hann fær þöggunarmálssókn frá sakborningum. Ekki eina heldur tvær. Markmiðið er að gera bloggara dýrkeypt að fjalla um mál sem blaðamenn og fjölmiðlar vilja sópa undir teppið.”
Páll skorar svo á Þórhildi Sunnu, þingmann Pírata, að ræða á alþingi þá þöggunartilburði sem hann telur sig beittan og sýna þannig gott fordæmi.