Auglýsing

Prótínstykki, léttur þurrmatur og starfsmannafatnaður til Úkraínu

Samkaup afhentu Golfsambandi Íslands næringu og fatnað sem nýtist á átakasvæðum Úkraínu og hafa virkjað söfnun í samstarfi við Rauða krossinn í Samkaups-appinu.

Starfsfólk Samkaupa hefur síðastliðinn sólarhring lagt allt kapp á að svara kalli Golfsambands Íslands en í dag afhentu þau Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa og Heiður Björk Friðbjörnsdóttir, framkvæmdarstjóri fjármálasviðs Samkaupa þeim Brynjari Eldon Geirssyni og Karen Sævarsdóttur hjá Golfsambandi Íslands yfir þrjú þúsund prótínstykki, steinefnablöndur og léttan þurrmat, sem flogið verður til Úkraínu á morgun og þaðan yfir á átakasvæðin í Kænugarði.

Um ræðir viðbragð við ákalli Golfsambands Íslands, sem hefur tekið að sér að aðstoða Félag Úkraínumanna á Íslandi við söfnun ýmiskonar hjálpargagna og koma þeim út hvar Golfsambands Úkraínu tekur á móti og sér um að útbýta á rétta staði.

„Það er mikilvægt að bregðast hratt við svona beiðni og starfsfólkið okkar fór á fullt í að útvega það sem Golfsambandið óskaði eftir á þessum tímapunkti, sem er næring fyrir Úkraínubúa á átakasvæðunum. Það skiptir höfuðmáli að senda næringu út sem ekki er háð flóknum geymsluskilyrðum og eru prótínstykkin og þurrmaturinn því besti kosturinn í þessum skelfilegu aðstæðum sem Úkraínubúar standa frammi fyrir. Auk þess að óska eftir næringu er mikil vöntun á fatnaði, peysum og jökkum og öðru slíku, fyrir þau sem standa vaktina og við fundum til yfir 200 peysur og jakka sem vonandi geta nýst. Við hvetjum jafnframt alla sem eiga eitthvað til í skápnum eða geymslunni að mæta með það í Holtagarða, þar sem enn er tekið á móti fatnaði og verður til klukkan 22.00 í kvöld,“ segir Gunnar Egill.

Golfsambandið hefur biðlað til almennings og óskar eftir hvers kyns útivistarfatnaði, léttum skóm í stórum stærðum, léttum dýnum, teppum ofl. til að senda út.

„Það er okkur bæði ljúft og skylt að leggja okkar að mörkum og við höfum hvatt starfsfólkið okkar og sömuleiðis almenning í gegnum okkar miðla til að taka þátt. Það eru fjölmargar leiðir til að hafa áhrif og allt skiptir máli. Við höfum til að mynda virkjað hnapp inni í Samkaups-appinu okkar sem leiðir notendur inn á framlagasíðu Rauða krossins á einfaldan hátt og við vonumst innilega til að okkar viðskiptavinir láti sitt ekki eftir liggja þar. Margt smátt gerir eitt stórt og við viljum gjarnan greiða aðgengi þeirra sem vilja og geta lagt málefninu lið með þessum hætti,“ segir Heiður Björk.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing