Auglýsing

Ráðherrann á faraldsfæti

Sjónvarpsþáttaröðin Ráðherrann í framleiðslu Sagafilm hefur verið seld til sýninga í Bandaríkjunum, Ástralíu, Kanada og Suður Evrópu.

Cineflix Rights dreifingaraðili Ráðherrans á heimsvísu hefur skrifað undir samninga við nýju streymisveituna Topic í Bandaríkjunum um sýningu á þáttunum fyrir bandarískan markað. Einnig hefur verið skrifað undir samninga við SBS í Ástralíu, AMC Networks International í Suður Evrópu og TVO í Kanada um sýningu á þáttunum. Þáttaröðin hóf göngu sína á RÚV 20. september síðastliðinn þar sem þættirnir fengu góðar viðtökur og hafa sýningar á þáttunum þegar hafist á SVT í Svíþjóð og YLE í Finnlandi. Fyrr í haust var tilkynnt um tilnefningar Ráðherrans á PRIX Europa verðlaunahátíðinni og Venice TV Awards.

„Við erum gríðarlega ánægð að sjá Ráðherrann fara á eins stóra markaði og Bandaríkin, Ástralía, Suður Evrópa og Kanada eru, til viðbótar við Norðurlöndin og Niðurlönd. Mikil vinna hefur farið í að ganga frá þessum samningum og vonum við auðvitað að þessar þjóðir taki vel við Benedikt og hans pólítík, rétt eins og hans heimafólk hefur gert,“ segir Hilmar Sigurðsson, forstjóri Sagafilm.

Háskólakennarinn Benedikt Ríkharðsson kemur eins og stormsveipur inn í íslensk stjórnmál. Þessi óhefðbundni stjórnmálamaður landar embætti forsætisráðherra með óvenjulegri nálgun í kosningabaráttu. Eftir að hann tekur við embætti fara einkenni geðhvarfa að koma fram í fari hans og hegðun.

Ólafur Darri Ólafsson er í hlutverki óvenjulega ráðherrans en með önnur stór hlutverk í þáttunum fara Aníta Briem, Þuríður Blær Jóhannsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson. Leikstjórn var í höndum Nönnu Kristínar Magnúsdóttur og Arnórs Pálma Arnarsonar. Handrit skrifuðu Birkir Blær Ingólfsson, Björg Magnúsdóttir og Jónas Margeir Ingólfsson. Framleiðendur frá Sagafilm eru Anna Vigdís Gísladóttir, Hilmar Sigurðsson og Kjartan Þór Þórðarson.

„Það er afar ánægjulegt að sjá að Ráðherrann höfði til þjóða um víða veröld. Þessar sölur sýna enn og aftur fram á hvað íslenskt sjónvarpsefni er langt komið á þeim örfáu árum sem framleiðsla slíks efnis hefur viðhafst á Íslandi. Samkeppnin er afar hörð um athygli kaupenda en Ráðherrann hefur án efa vakið eftirtekt fyrir að vera öðruvísi sjónvarpsefni. Það gleður okkur sannarlega í Sagafilm,” segir Kjartan Þór Þórðarson framkvæmdastjóri Sagafilm Nordic í Stokkhólmi sem sér um alþjóðlega fjármögnun leikins sjónvarpsefnis Sagafilm.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing