Íslenska sjónvarpsþáttaröðin Ráðherrann, sem frumsýnd verður á RÚV þann 20. september næstkomandi, er tilnefnd til evrópsku ljósvakaverðlaunanna PRIX Europa.
Þættirnir eru tilnefndir til verðlauna fyrir besta leikna sjónvarpsefnið og verða verðlaunin veitt í október í Þýskalandi.
Í þáttunum fylgjumst við með Benedikt Ríkharðssyni sem kemur eins og stomsveipur í íslensk stjórnmál en eftir að hann kemst til valda fara einkenni geðhvarfa að koma fram í fari hans og hegðun.
Með aðalhlutverk í þáttunum fara þau Ólafur Darri Ólafsson, Aníta Briem, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Oddur Júlíusson, Jóhann Sigurðsson, Jóel Sæmundsson og Elva Ósk Ólafsdóttir.
Leikstjórn er í höndum Nönnu Kristínar Magnúsdóttur og Arnórs Pálma Arnarsonar en handrit skrifuðu Birkir Blær Ingólfsson, Björg Magnúsdóttir og Jónas Margeir Ingólfsson. Ásgrímur Guðbjartsson stýrði kvikmyndatökunni og Kjartan Holm semur tónlistina í þáttunum. Framleiðendur eru Anna Vigdís Gísladóttir, Hilmar Sigurðsson og Kjartan Þór Þórðarson.