Raftónlistarhátíðin Extreme Chill Festival fer fram í Reykjavík dagana 12-15 september.
„Við eigum núna tíu ára afmæli og þarna verður náttúrlega bara góð blanda af alls konar listafólki, mikið af tilraunakenndri tónlist og hughrifatónlist (e. ambiance music). Svo erum við líka með viðburði sem standa alveg til fjögur, hálffimm á nóttunni þar sem farið er meira út í dansvæna tónlist,“ segir Pan Thorarensen skipuleggjandi hátíðarinnar.
Fer hátíðin fram á hinum ýmsu stöðum bæjarins meðal annars á Gauknum, Iðnó, og Gamla Bíó. Aðalnúmer hátíðarinnar þetta árið er þýska hljómsveitin Tangerine Dream en hún spilar í Gamla Bíó á laugardagskvöldið.
„Þetta verður sögulegur viðburður og það er ótrúlega magnað að fá þau til landsins. Ef eitthvað þá er það sem þau eru að senda frá sér núna með því betra sem maður hefur heyrt með Tangerine Dream. Efnið þeirra er svo ferskt og unga fólkið er núna að kveikja almennilega á þessu líka.“
Markmið hátíðarinn er að sameina ólík listform, koma á tengingu á milli íslenskra og erlendra tónlistarmanna og draga Reykjavík í sviðsljósið. En skipuleggjendur hátíðarinnar vilja meina að Reykjavík sé raftónlistar höfuðborg Íslands.
Þetta kom fram á vef mbl í dag.