Ragnheiður Ragnarsdóttir er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar.
Ragga, eins og hún er kölluð, var ein öflugasta sundkona Íslands um árabil og fór meðal annars á tvenna Olympíuleika. Fyrir nokkrum árum venti Ragga kvæði sínu í kross og setti allt sitt í leiklistina. Hún landaði einu af aðalhlutverkunum í vinsælu sjónvarpsseríunni Vikings. Hún segist hafa verið með augastað á þessarri tilteknu seríu alveg síðan hún byrjaði í leiklistinni.
,,Ég var ekkert feimin við að spyrja fólk bara hvort það þekkti einhvern sem væri að vinna við Vikings seríuna til að reyna að fá tenginu þar inn. Á endanum komu Sigurjón Sighvats og konan hans mér í samband við Ólaf Gunnarsson sem var að vinna við seríuna og eftir það gerðist þetta frekar hratt. Eftir 2-3 mánuði var allt klappað og klárt og ég var komin með hlutverkið. En ég hafði verið að vinna að þessu leynt og ljóst í nokkur ár þar á undan. Það voru alls konar hurðar sem ekki opnuðust og þetta var mikil vinna. En ég er vön því að hafa fyrir hlutunum úr sundinu, þannig að á endanum finnur maður bara leiðina sem þarf að finna.“
Þátturinn hefur notið gífurlegra vinsælda og sem dæmi um það hefur Instagram reikningur Röggu rokið upp fyrir 250 þúsund fylgjendur. En hún þarf áfram að hafa fyrir hlutunum og nú vinnur hún meðal annars við að skúra í Ísaksskóla á milli þess sem hún fer í prufur fyrir ný hlutverk. Ragga fór sem fyrr segir á tvenna Olympíuleika og í þættinum segir hún meðal annars sögu af því þegar hún hitti bandaríska körfuboltalandsliðið á Olympíuleikunum 2008, þar sem meðal annars voru stórstjörnurnar Kobe Bryant og Lebron James.
,,Ég kynntist þeim mjög vel. Ég spottaði þá fyrst í matartjaldinu og hugsaði með mér að ég yrði að fá selfie með þeim. Sá fyrsti sem ég hitti úr bandaríska liðinu varð uppnuminn og sagði:
,,Hver ert þú? Má ég fá selfie með þér?“
„Svo fór ég aftur til baka í okkar hús og aðeins nokkrum mínútum seinna er mér sagt að það sé verið að spyrja eftir mér og þá stóð hálft bandaríska körfuboltalandsliðið þarna fyrir utan og vildu hitta mig. Allir aðalgæjarnir og mér fannst þetta mjög fyndið allt saman. Svo fórum við í nokkur partý með þeim eftir að allir voru búnir að keppa og þá fór ég á hæla sem eru 15 sentimetrar og ég er 188cm, þannig að þá var ég orðin meira en 2 metrar á hæð. Svo endaði þetta með því að ég var orðin voðalega góð vinkona þeirra og var með þeim í rútunni þeirra og þeir dældu í mig fötum og alls konar dóti. En þetta var auðvitað bara skemmtileg saga og hápunktarnir á olympíuleikunum voru önnur atriði, eins og að keppa og svo líka bara opnunarhátíðin sjálf. Við Sigfús Sigurðsson línumaður vorum bæði nærri gráti nær þegar við löbbuðum um völlinn á opnunarhátíðinni. Svo var náttúrulega sturlað að vera á leikunum 2008 þegar Ísland vann silfrið í handboltanum.“
Í þættinum ræða Ragnheiður og Sölvi um stórmerkilegan feril Röggu í sundinu og leiklistinni, mikilvægi þess að þora að elta ástríðurnar og margt margt fleira.
Þáttinn í heild má sjá hér að neðan.