Auglýsing

Reykjavík Fringe fer fram á sviði og á netinu

Árlega jaðarlistahátíðin Reykjavík Fringe Festival fer fram 4.-12. júlí. Þetta er í þriðja sinn sem hátíðin fer fram, en hún fer þó fram með örlítið breyttu sniði í ár vegna aðstæðna sem við þekkjum öll. Óvíst var hvort erlendir þátttakendur gætu komið til landsins þegar verið var að undirbúa hátíðina, svo ákveðið var að bjóða öllum erlendum atriðum að vera með lifandi streymi á verkum sínum, en innlendir listamenn sýna sín verk á sýningarstöðum innan miðborgar Reykjavíkur, og verður þeim sýningum einnig streymt svo erlendir áhorfendur geti fylgst með.
Sýningarstaðir í ár eru The Secret Cellar, Tjarnarbíó, Hlemmur Square Hotel, Gallerí Fold og Samtökin ’78 en einnig verða pop-up atriði utandyra. Streymisatriði fara fram á síðunni crowdcast.io/rvkfringe og þó aðgangur sé ókeypis eru áhorfendur hvattir til að styrkja listamennina. Boðið verður upp á áhorfspartý á streyminu á hótel Hlemmi Square innan um myndlistar- og ljósmyndasýningar eftir íslenskar listakonur.
Hátíðarstjóri Nanna Gunnars segir: 
„Dagskráin í ár er ótrúlega fjölbreytt og umfangsmikil sérstaklega þegar miðað er við aðstæður. Það stóð aldrei til að breyta upprunalegu dagsetningum hátíðarinnar og við höfðum fulla trú á að geta haldið hátíðina, þó dagskráin hafi tekið stakkaskiptum oftar en einu sinni og oftar en þrisvar.“
Fulla dagskrá má finna á heimasíðu hátíðarinnar rvkfringe.is en yfir 50 mismunandi atriði eru í boði, sem spanna allt frá uppistandi, myndlistarsýningum, kabarett, drag og leiklistarsýningum yfir í gjörninga hvers konar.
Sem dæmi um atriði má nefna uppistandssýningarnar I’m Tired eftir Jono Duffy, og My Voices Have Tourettes, en báðar fara fram bæði á The Secret Cellar og í Tjarnarbíó og í Gallerí Fold verður Bára Halldórsdóttir með einleik sem nefnist This Is Not A Show. Tvær kabarettsýningar eiga sér einnig stað, sýning með Túttífrúttunum á Hard Rock Café og sýning með Dömum og herra í Tjarnarbíói.
„Það er í raun eitthvað fyrir alla á hátíðinni og ótrúlega erfitt að velja úr einhverjar ákveðnar sýningar til að mæla með, en af streyminu er ég er t.d. mjög spennt fyrir að heyra alvöru íslenska hryllingssögu um Grýlu [Grýla – Not For Children], hlusta á íðilfagran söng trúðsins á fimmtu hæð [The Clown On The Fifth Floor] og sjá íslenska verkið Þeir [Them] eftir leikhópinn Spindrift Theatre sem fjallar um sýn kvenna á karlmennskuna. Af live sýningum hlakka ég svo mjög til að sjá Guide to Guiding sem fjallar um ferðamennskuna á Íslandi, báðar kabarett sýningarnar og hreinlega allt uppistandið sem verður á Secret Cellar.“ segir Nanna.
Opnunarveisla hátíðarinnar fer fram laugardaginn 4. júlí á hótel Hlemmur Square og hefst með opnunarsýningunni CRAPSHOOT! Or Why Al Voted For Trump: A Love Story sem er sýnd í streymi frá San Diego kl 19:00. Um er að ræða súrrealískan gaman einleik um mann sem kaus Trump til forseta og eftirköst þess. Ýmis önnur skemmtiatriði verða í boði um kvöldið, m.a. dragsýning frá Drag-súgi og geta gestir verslað sér húðflúr frá White Hill Tattoo. Léttar veitingar verða í boði og aðgangur er ókeypis.
Degi seinna, sunnudaginn 5. júlí, verður forsýningarkvöld haldið á Hard Rock Café kl 20:00. Þar fá allir þátttakendur hátíðarinnar eingöngu 2 mínútur til að kynna sitt atriði, og úr verður hin besta skemmtun. Aðgangur að forsýningarkvöldi er ókeypis og allir þeir sem vilja kynna sér úrvalið á hátíðinni eru hvattir til að mæta.
Miðar á einstaka viðburði eru komnir í sölu á tix.is, og rennur allur miðasölugróði beint til listamanna. Til að styrkja við hátíðina sjálfa þurfa gestir því einnig að versla hátíðararmband fyrir 1000 krónur sem gildir alla hátíðina og veitir afslætti á börum sýningarstaða.
Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing