Jóhanna Þórhallsdóttir er landsmönnum kunn en hún hefur verið virk á tónlistarsviðinu um árabil, sem kórstjóri og söngkona. Hún hefur gefið út geisladiska og komið fram með ýmsum hljómsveitum og sungið klassíska og samtíma tónlist, djass og latínó.
Á miðjum aldri fann hún ástina, giftist sínum heittelskaða, Óttari Guðmundssyni geðlækni, söðlaði um og snéri sér að myndlistinni, sem hún sinnir nú af fullum krafti. Hún segist alltaf hafa verið skapandi og óhrædd við áskoranir. Lífið snúist um að skapa og vera í núinu, það sé hið sanna ríkidæmi.
Jóhanna er alin upp á hefðbundnu heimili þar sem faðirinn var fyrirvinna og móðir hennar vann heima. Á heimilinu ríkti mikil tónlist og gleði, mamma hennar spilaði á píanó og söng mikið, hafði altrödd eins og Jóhanna sem raddaði. „Það var mikið sungið í boðum og dansað og tjúttað. Ég ólst upp á Háaleitisvegi, afi og amma voru með kindur og kartöflugarð þar. Við bjuggum öll saman í stóru húsi, afi og amma á neðri hæðinni og við á efri. Þetta var leigulóð sem bærinn átti og það urðu skiplagsbreytingar upp úr 1963 og þá var allt þetta gamla rifið og Háaleitisbraut varð til. Við fengum lóð undir raðhús en pabbi smíðaði og við fluttum þangað.“
„… þegar ég fór að stjórna kórum þá fór ég þarna árlega með barnakóra, Trésmiðakórinn, Léttsveitina og alltaf var rauður dregill dreginn fram fyrir mann.“
Hugurinn hneigðist snemma til tónlistar
Jóhanna lærði á gítar í Tónskóla Sigursveins og þar sem hún fékk tónlistaruppeldi. Þegar hún var komin í menntaskóla tók tónlistin yfir. „Ég fór í MH-kórinn og við vorum nokkur sem stofnuðum hljómsveit, Diabolus In Musica,“ segir Jóhanna, en margir muna eflaust eftir að hafa sungið Pétur Jónatansson, lag Páls Torfa Önundarsonar, í partíum í den. „Hljómsveitin varð til í skólanum með tveimur utanaðkomandi strákum úr myndlistarskólanum. Við gáfum út plötu og vorum vinsæl. Ég var alltaf syngjandi og lærdómurinn fékk minni og minni tíma. Svo allt í einu uppgötvaði ég það að líklega væri hægt að leggja stund á tónlist. Það var einhvern veginn aldrei inni í myndinni hjá mömmu og pabba. Maður átti að læra eitthvað gagnlegt og helst ná sér í góða mann,“ segir Jóhanna, „og maður hugsaði; öööö, þvílíkt hallæri … En svona var hugsunarhátturinn.“
Hún segir að fólk hafi gjarnan spurt sig í gengum árin: … og hvað gerirðu? og að þetta sé enn algeng spurning sem listamenn fái. „Ég er stundum spurð hvað ég geri og þegar ég svara því er sagt, „já, er eitthvað upp úr því að hafa?“ segir Jóhanna og hlær sínum dillandi hlátri. „En ég hef eiginlega lifað á tónlist í einhverri mynd alla mína tíð og þekki ekkert annað. Ég var einstæð móðir og stofnaði kóra og stjórnaði þeim, söng í jarðarförum og á böllum og með Sinfó, hvernig átti maður annars að fleyta sér áfram …?“
Jóhanna fór í The Royal Northern College í söngnám en hafði verið hjá John Speight í söngnámi hér heima. Hún var þá nýbúin að eignast dóttur sína, Hildigunni Einarsdóttur söngkonu, árið 1983. „Ég var orðin 25 ára og hafði farið í félagsfræði, verið starfsmaður SÍNE, unnið á Helgarpóstinum, kennt í Réttarholtsskóla og hafði prófað margt áður en ég fór í söngnámið. Ég var þarna í fjögur ár en elti svo ítalskan kennara til London og var eitt ár í einkatímum hjá henni. Þarna var ég að skilja við barnsföður minn og það var erfitt að vera einstæð móðir í London. Enginn nema Sigríður Ella Magnúsdóttir óperusöngkona gat passað fyrir mig, mér var nú ekki í kot vísað með það, en að lokum fór ég heim. Þar var öryggið.
Ég var heppin og fékk að syngja mikið, t.d. Altrhapsody eftir Brahms með Íslensku hljómsveitinni sem þá var og hét og frumflutti töluvert með henni, verk eftir Hróðmar Sigurbjörnsson, John Speight, Hjálmar Ragnarsson o.fl. Ég kenndi hjá Sigursveini og fór í söngtíma til Sigurðar Demetz.
Við Magga Pálma stofnuðum svo Óperusmiðjuna og síðar Kvennakór Reykjavíkur. Þetta var skemmtilegur tími.
Ég fór þá til Ítalíu og lærði hjá Eugina Ratti í eitt ár og kynntist mörgum þar. Þegar ég fór að stjórna kórum fór ég þangað árlega með barnakóra, Trésmiðakórinn, Léttsveitina og þessir ítölsku vinir minn drógu fram rauða dregilinn, sama hvenær ég kom,“ segir Jóhanna og brosir.
Kom mataráhuginn fram þar, spyr blaðamaður, en Jóhanna er mikill matgæðingur? „Ja, hann hefur náttúrlega alltaf verið,“ svarar hún sposk, en það var ekki verra að vera þarna, ég lærði að matargerð þarf ekki að vera flókin, Ítalir vilja hafa allt einfalt og kunna að njóta og vera í núinu. Þeir eru ekki flýta sér eins og við gerum. Ég hugsaði með mér þegar ég fór til Íslands, að ég ætlaði að taka upp þeirra siði. En ég var fljótt komin á 10 staði í einu.
Tíminn leið við störf og söng, ég söng m.a. með þér í gríska harmleiknum, Trójudætum við fallega tónlist Leifs Þórarinssonar sem var mjög skemmtilegt.“
Uppgötvaði myndlistarhæfileikana
Smám saman ákvaðJóhannaað hætta með kórana. „Ég var stödd inni í miklu breytingatímabili. Við Óttar vorum nýfarin að búa saman og lífið varð mun flóknara við það. Við eigum saman sex börn og barnabörnin eru orðin ellefu og tvö eru á leiðinni á þessu ári.
Fyrst hætti ég með barnakórinn í Bústaðakirkju, svo með Léttsveitina. „Ég var byrjuð í myndlistinni og hún kallaði á mig. Ég hafði enga hugmynd um að ég hefði þetta í mér,“ segir Jóhanna með áherslu. „Þú ert bara ekkert slæm og með mjög góða litapallettu,“ sagði Sara Vilbergsdóttir við mig á mínu fyrsta námsskeiði. Ég ákvað svo að fara í myndlistarforskóla með unglingunum eða þeim sem voru nýbúnir með stúdentspróf í Myndlistaskóla Reykjavíkur.“ Og þar með var teningunum kastað.
„Ríkidæmi er ekki fólgið í peningum. Það eina sem skiptir máli er að vera í sköpuninni og gleðinni við það…“
Sjá lengri grein á vef Birtings.
Texti: Ragnheiður Linnet
Myndir: Hallur Karlsson