Öll ritstjórn DV, fyrir utan einn blaðamann, hefur verið send heim í sóttkví eftir að kona sem gegnir þar hlutastarfi var greind með COVID-19. Þetta kemur fram á vef DV
Konan greindist með smit eftir að hafa sótt ritstjórnarfund með blaðamönnum DV á þriðjudagsmorgun. Í kjölfarið var öll ritstjórnin send heim í sóttkví í varúðarskyni. Einn blaðamaður var í fríi þennan dag og sleppur hann því við sóttkví.
Tekið er fram að blaðamenn sem sendir voru heim munu sinna störfum sínum að heiman og mun því atvikið ekki hafa áhrif á fréttaflutning dv.is.