Hátíðarsýning Ljósanætur, Rokkveislan mikla, er hluti af Með blik í auga tónleikaröðinni sem hefur boðið íbúum Reykjanesbæjar og gestum Ljósanæturhátíðar upp á glæsilega tónleika undanfarin níu ár.
Hertar sóttvarnarreglur vegna Covid 19 komu í veg fyrir það að haldnir yrðu tónleikar á Ljósanæturhelginni eins og fyrirhugað var. Nú hefur verið slakað á fjöldatakmörkunum og tónleikarnir eru komnir aftur á dagskrá.
„Þegar ljóst var að við gætum ekki sýnt á Ljósanótt, eins og við höfum gert undanfarin níu ár, kom smá blús í hópinn. En með bjartsýni og biðlund og nú tillögu sóttvarnarlæknis til heilbrigðisráðherra um rýmkun reglna, þá kýlum við á þetta. Vonandi að hún fari að tillögum hans, hún hefur gert það fram að þessu, “ segir Kristján Jóhannson Blikari í samtali við víkurfréttir
„Við stefnum ótrauð á að frumsýna „Rokkveisluna miklu“ föstudaginn 25.september n.k. kl 20 í Stapa. Rýmkun á fjöldatakmörkunum úr 100 manns í 200 gerir okkur kleift að halda ótrauð áfram.“
Nú verður efnt til góðrar rokkveislu þar sem rokksveit Arnórs mun flytja tónlist frá sveitum eins og Rolling Stones, Deep Purple, AC/DC, U2 og Procol Harum svo ekki sé minnst á slagara frá Led Zeppelin.
Söngvarar sýningarinnar eru ekki af verri endanum en það eru þau Stefanía Svavars, Dagur Sigurðsson, Matti Matt og Stebbi Jak.
Miðasala fer fram á tix.is og hljomaholl.is