Parið Gréta María og Ísak vinna nú hörðum höndum að því að safna fæðingarsögum feðra fyrir bók sem þau hyggjast gefa út.
Vilja þau fá bæði gamlar og nýjar sögur, ekki einungis frá nýbökuðum feðrum. Þau bjóðast jafnframt til þess að hitta fólk og skrásetja sögurnar fyrir það ef fólki finnst það betra.
„Það sem gerir þetta verkefni svo skemmtilegt er hversu ólíka sýn við höfum á þetta,“ segir Ísak.
Þau segja kveikjuna að verkefninu vera þá að þau hafi oft rætt fæðingarsögur við vini og vandamenn og þar komi eflaust sterkt inn starfsvettvangur Grétu Maríu en hún er ljósmóðir.
„Hugmyndin varð tæknilega séð til í sumar en við höfum lengi verið að velta þessu fyrir okkur. Næstum því hvar sem við komum, um leið og fólk uppgötvar að Gréta er ljósmóðir, þá finnur fólk þörfina og löngunina til að ræða sína fæðingu. Hvort sem að það gekk vel eða erfiðlega,“ segir Ísak.
„Fólk er opið með þetta, sem er ansi magnað miðað við hversu persónulegt þetta er. Það er auðvitað ekki sjálfgefið að fólk sé tilbúið að ræða þetta,“ segir Ísak og Gréta María bætir við: „Þetta liggur öllum á hjarta, því þetta er svo stór viðburður í lífi fólks. Það er svo gaman. Það ræða þetta kannski fleiri mæður við mig en feður, en þeir leita oftar til Ísaks. Bæði menn sem eru að verða feður og afar.“
Lesa má meira um bókina á facebook síðu sem þau stofnuðu í kringum verkefnið.
Þetta kom fram á vef Fréttablaðsins.