Samsett mynd DV af Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra Reykjavíkur, þar sem byssumaður miðar skotvopni að höfði hans hefur vakið mikla athygli.
Blaðamaður DV staðfesti í samtali við Vísi í gær að myndin hafi verið unnin af starfsmönnum DV. Hann viðurkennir þó að hún hafi verið vanhugsuð og unnin í fljótfærni. Myndin hefur nú verið fjarlægð af vefnum.
Frétt DV fjallar um umræður úr Facebook-hópnum Stjórnmálaspjallið þar sem rætt var um það þegar Dagur kom á hjóli til að funda með Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna.
Í umfjöllun Vísis kemur fram að Dagur hafði ekki séð mynd DV þegar var leitað eftir viðbrögðum en aðspurður telji hann það afast sérstakt og merki um alvarlegt dómgreindarleysi að sækja skítkast djúpt inn á internetið og nota í slíkan fréttaflutning. Honum hafi brugðið þegar hann sá myndina og þrátt fyrir að hann sé ýmsu vanur frá DV þá muni hann ekki eftir neinu svona.
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, segir að myndin sameini allt hið ömurlega sem einkenni DV.
Það er margt hægt að segja um DV. Efnið nánast allt drasl. Samsettu-myndirnar með eldingunum á mörkum hins vitræna. Eini tilgangurinn að plata fólk inn og búa til umferð. En hér sameinast allt hið ömurlega. Hörmuleg frétt, stela mynd sem Kjarninn á og miða byssu á höfuð Dags. pic.twitter.com/2kV1X0bfQv
— Þórður S. Júlíusson (@thordursnaer) September 5, 2019