Ári grænnar iðnbyltingar var ýtt úr vör í dag fimmtudaginn 10. febrúar kl. 15.00 hjá Carbfix á Hellisheiði að viðstöddum forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessyni, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni.
Með Ári grænnar iðnbyltingar vilja Samtök iðnaðarins leggja sitt af mörkum til að vekja athygli á mikilvægi grænna umskipta sem þegar eru hafin í íslensku atvinnulífi. Til að ná metnaðarfullum markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum þarf nýsköpun, fjárfestingar, orkuskipti og samstarf svo eitthvað sé nefnt. Fjölmörg iðnfyrirtæki vinna að lausnum sem stuðla að minni kolefnislosun.
Það fór vel á því að hefja Ár grænnar iðnbyltingar í starfsstöð Carbfix sem er meðal aðildarfyrirtækja SI en starfsemi þess hefur vakið heimsathygli fyrir byltingarkennda tækni við föngun og kolefnisförgun.
Árni Sigurjónsson, formaður SI: „Græn iðnbylting ætti ekki að hafa minni áhrif en fyrri iðnbyltingar en áhrifin verða með breiðari hætti á flest svið þjóðlífsins. Þessi bylting leiðir af ákvörðunum, markmiðum og aðgerðum stjórnvalda en byggir með órjúfanlegum hætti á þeirri tækniþróun og framförum sem fyrri iðnbyltingar hafa fært okkur. Markmið íslenskra stjórnvalda eru skýr: Ísland verði kolefnishlutlaust fyrir 2040 og verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir 2050. Það er stjórnvalda að setja skýr markmið en atvinnulífsins að finna bestu lausnirnar og leiðina að markmiðunum. Til að ná settu marki þarf því víðtækt samstarf stjórnvalda og atvinnulífs. Sér í lagi þurfa stjórnvöld að setja umgjörð sem hvetur til þess að lausnirnar verði til og að þær verði nýttar. Með því að tileinka árið 2022 grænni iðnbyltingu vilja Samtök iðnaðarins hvetja til aðgerða þannig að Ísland geti sannarlega talist grænt.“