Sérsveitin var kölluð til vegna búðarþjófnaðar í versluninni Bónus í Skipholti í dag. Þar var maður stöðvaður við hnupl og hringdi starfsfólkið eftir aðstoð. Þetta kemur fram á vef vísis
Maðurinn reyndi að komast undan og hljóp starfsfólk á eftir honum. Þegar út úr búðinni var komið greip maðurinn grjót og ógnaði fólki.
Að sögn Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar yfirlögregluþjóns var lögreglan fljót á staðinn en útkallsbíll frá sérsveitinni var nálægt versluninni þegar útkallið barst. Sérsveitin er hluti af almennu löggæsluskipulagi landsins og tekur Ásgeir það fram að það þurfi því ekki að að vera til marks um alvarleika útkallsins að sérsveitin sé send á staðinn.
Maðurinn veitti lögreglu ekki mótspyrnu og var málið leyst á vettvangi. Ekki var talin þörf á að handtaka manninn eða færa hann í yfirheyrslu.