Í kvöld fer fram ástarráðstefna í Tjarnarbíó þar sem ástin í vísindum, trú og list verður könnuð og líkamleg einkenni ástarinnar rannsökuð.
„Þetta er örugglega fyrsta ástarráðstefnan í heiminum og er í raun haldin í kringum fyrirlestur pólska taugalæknisins Bartosz Karasweski sem er að halda tölu um ást og líffræði,“ segir Elísabet Kristín Jökulsdóttir, rithöfundur og skipuleggjari ráðstefnunnar, í samtali við Fréttablaðið. „Hann ætlar að sýna áhrif ástarinnar á heilann og vita hvort að sé hægt að mæla ástina í líkamanum.“ Munu sex manns játa ást sína í beinni á ráðstefnunni, þeirra á meðal verða Páll Óskar, Auður Styrkársdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir og Stefán Ingvar Vigfússon
Sjálf segir Elísabet þó nokkrum sinnum hafa fundið fyrir kröftum ástarinnar á eigin skinni. „Ég hef fundið fyrir fiðrildum í maganum og hita í brjóstinu, svo hef ég tvisvar sinnum fengið í hnén,“ segir hún en segist þó einungins kikna í hjnánum þegar hún er í maníu. „Ég fékk svona líka í hnén gagnvart gæslumanni á geðdeild,“ segir Elísabet hlægjandi.
„Ástin er tilkomin til að koma fólki út úr einmanaleika, með henni brotna veggirnir á milli okkar og afhjúpa okkur.“ Eitt það fallegasta við ástina sé að hún gerir ekki upp á milli kosta og galla. „Það er mikil gjöf í heimi þar sem fólk dæmir hvort annað og reynir að aðgreina sig hvort frá öðru,“ bendir Elísabet á.
Að hennar mati einskorðast ástin ekki við börn maka eða fólk. „Við elskum ekki bara maka og börn heldur líka vinnuna, jörðina, og ég elska Ófeigsfjörð og eldgos.“
Elísabet segir að gestir ráðstefnunnar muni annaðhvort ráfa þaðan út með ást í hjarta eða hnefann á lofti. „Það er nefnilega þannig að annað hvort fá þeir upp í kok af ástinni eða þá að þeir eru með fiðrildi í hjartanu.“
En þó vonar hún að lokaniðurstaða ráðstefnunnar í kvöld verði fiðrildi sem flögrar í salnum og enginn veit hvaðan kom. „Ég yrði voðalega ánægð með það.“
Ráðstefnan er eins og fyrr sagði í Tjarnarbíó í kvöld og hefst kl. 20.00.