Sigur Rós gefur út plötuna Hrafnagaldur Óðins í dag. Tónverkið er meðal annars flutt af kammerkórnum Schola cantorum og L’Orchestre des Laureats du Conservatoire national de Paris. Platan kemur út á vegum Krunk útgáfunnar í gegnum Warner Classics. Þar að auki gefur hljómsveitin út nýtt myndband við lagið „Spár eða spakmál“.
Hrafnagaldur Óðins er samstarfsverkefni hljómsveitarinnar og tónskáldsins Hilmars Arnar Hilmarssonar, ásamt Steindóri Andersen, sem er einn virtasti kvæðamaður Íslands. Útsetningar fyrir kór og sinfóníuhljómsveit voru að mestu í höndum Kjartans Sveinssonar, fyrrum meðlims hljómsveitarinnar, og Maríu Huldar Markan Sigfúsdóttur. Steinharpan eftir listamanninn Pál Guðmundsson gegnir einnig lykilhlutverki í verkinu.