Auglýsing

Símamót Sögu Garðars: „Fólk er nefninlega svo rosalega frábært og gott“

 

Nú hef ég það á samviskunni að hafa týnt svona ca 3.000 húfum, 50.000 vettlingum, mörgum úlpum, öllum tegundum af kortum og geymi lykla af húsinu mínu út um allan bæ því ég man aldrei eftir mínum.

Svo segir í pistli Sögu Garðarsdóttur, en þar lýsir hún vandræðum sínum við að passa upp á hluti sína. Sagðist hún hafa týnt óteljandi hlutum um ævina og fullyrti að hún hefði eytt meiri tíma í óskilamunakompum en leigubílum í gegnum ævina.

Saga taldi síma sinn týndan og tröllum gefinn en svo reyndist ekki vera. „Tveimur árum seinna þegar ég var komin með annan síma (þennan sem fór svo í Skerjagarðinn) þá hringdi síminn hjá Snorra. Ég var sofandi við hliðiná honum en byrjaði að rumska þegar Snorri sagði aftur og aftur ,,No Í am talking in my phone” og rödd með þykkum frönskum hreim svarði alltaf ,,No, I have your phone!”.

Þá hafði einhver yndisleg frönsk hjólakona fundið símann og reynt að hafa uppá mér. Hún hafði haft samband við Apple og þeir neitað að opna símann. Hún hafði þá (ímynda ég mér) sett hann á öruggan stað, kannski ofan á píanóið sitt eða hengt uppá vegg sem fundna list/ráðgátu. Tvö ár líða og systir hennar byrjar með manni sem reynist vera hakkari. Mín trygglynda franska kona tekur þá loks símann niður af veggnum og biður hakkarann góða um aðstoð. Okkar maður reddar málunum og hún sendi mér símann og ég sendi henni gula ullarsokka í staðinn,“ skrifar Saga.

Hér má lesa pistilinn í heild sinni:

„Ég held að ég geti staðfest að ég hafi eytt meiri tíma í óskilamunskompum heldur en í leigubílum um ævina. Ég veit hvað þú ert að hugsa – það getur ekki verið – sko ég hugsaði þetta mjög lengi áður en ég skrifaði þetta og í versta falli jafn langan tíma – þú veist ekki hvað pabbi minn sendi mig oft að leita af sömu flíkinni í KR og öllum skólum sem ég hef sótt og hvað ég fer oft niður í kjallara í Vesturbæjarlauginni að skoða mishvít handklæði og trosnuð bikini sem gætu verið mín.

En að máli málanna; farsímum. Mikið gengur mér illa að eiga þá. Fyrir utan klassíska gleymsku þá missi ég þá óvenju oft í sjó. Einn drukknaði í sænska Skerjagarðinum og annar á Húsavík. Einn síma átti ég nokkuð lengi með langri hvíld samt. Ég var í Frakklandi með fjölskyldu minni í skógarferð og geymdi hann uppá bíl meðan ég teygði úr mér eða eitthvað sem maður gerir á leiðinni inní bíl. Ég gleymdi honum þar og við keyrðum í burtu. Pabbi sendi mig til baka að leita og ég leitaði og leitaði og leitaði. Án árangurs. Jæja, þannig var nú það. Ég er vön að labba skömmustulega heim og horfa í vantrúa augu ástvina minna og segja þeim að ég hafi týnt öllu.

Tveimur árum seinna þegar ég var komin með annan síma (þennan sem fór svo í Skerjagarðinn) þá hringdi síminn hjá Snorra. Ég var sofandi við hliðiná honum en byrjaði að rumska þegar Snorri sagði aftur og aftur ,,No Í am talking in my phone” og rödd með þykkum frönskum hreim svarði alltaf ,,No, I have your phone!”. Þá hafði einhver yndisleg frönsk hjólakona fundið símann og reynt að hafa uppá mér. Hún hafði haft samband við Apple og þeir neitað að opna símann. Hún hafði þá (ímynda ég mér) sett hann á öruggan stað, kannski ofan á píanóið sitt eða hengt uppá vegg sem fundna list/ráðgátu. Tvö ár líða og systir hennar byrjar með manni sem reynist vera hakkari. Mín trygglynda franska kona tekur þá loks símann niður af veggnum og biður hakkarann góða um aðstoð. Okkar maður reddar málunum og hún sendi mér símann og ég sendi henni gula ullarsokka í staðinn.
Ég byrjaði að að nota franska ævintýrasímann aftur um leið og hinn sökk í sæ.

En nú var ég sumsé að glata enn einum símanum. Á nýjan ókunnan hátt. En ég læt hér fylgja með vídjó og mynd því mér gekk illa að útskýra þetta fyrir pabba án þess (ásamt seinustu myndinni sem ég gat tekið úr símanum). Ég setti sumsé símann á þak bílsins í mestu makindum á meðan ég teygði úr mér eða eitthvað sem maður gerir á leið út úr bíl. Svo opnaði ég skottið og þegar ég lokaði því þá BÚMM var síminn fastur. Uppá rönd…. Það þurfti fimm listamenn til að draga hann út og þá var hann brotinn og bíllinn rispaður. Sko….
Ég er náttúrulega að skrifa þett af nokkrum misgóðum ástæðum.
Sú fyrsta er að ég á að vera að setja upp nýja símann minn en það gengur svo illa afþví að ég man engin lykilorð. Ég ákvað því að skrifa þetta frekar
Önnur ástæðan er að ég er alltaf að hitta fólk sem er tilbúið að hjálpa þó að það sé tímafrekt eða hreinlega hættulegt eins og þegar það þarf að tosa mjög brotinn síma með mörgum glerbrotum úr bíl sem gæti tætt á þeim hendurnar. Fólk er nefninlega svo rosalega frábært og gott.

Þriðja ástæðan er að ég hef svo oft hugsað hvenær maður má taka dót úr óskilamunum sem er búið að vera þar lengi. Ef ég er til dæmis að leita að vettlingum í körfu með þriggja mánaða gömlum óskilamunum. Mætti ég kannski í staðinn bara velja mér nýja svipaða? Ha? Hvað finnst ykkur? Eða sjampó sem er sennilega bara annars að fara í ruslið? Jæja, veltið þessu fyrir ykkur og ef þið erum mjög hneyksluð á þessum spurningum þá er ég sammála ykkur og ekki dæma mig!!!
Fjórða: Ég vissi ekki að ég væri kona sem segir svona casually ,,jæja, svona fór um sjóferð þá” eins og ég geri í myndbandinu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing