Uppsetning á skautasvelli Nova á Ingólfstorgi er hafin og stefnt er á að svellið opni laugardaginn 28. nóvember. Í ljósi aðstæðna vegna Covid-19 verður skipulag með örlítið breyttu sniði en áður.
Gert er ráð fyrir að bóka þurfi tíma fyrirfram en allar upplýsingar um tímapantanir og miðasölu verða kynntar síðar.
„Þetta ár hefur svo sannarlega verið krefjandi og hvatt okkur til að hugsa út fyrir kassann. Nova-svellið er orðinn fastur liður í jólaundirbúningi okkar allra og það er mikilvægt að halda gleðinni gangandi þó á móti blási. Það komast vissulega færri að í einu en við vonum að sem flestir taki gleði sína á svellinu og skauti inn í jólin með okkur í ár eins og fyrri árin. Við leggjum auðvitað mikið upp úr sóttvörnum á svæðinu svo allir geta verið með gleðina í fyrirrúmi á Nova-svellinu,“ segir Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, í tilkynningu frá fyrirtækinu.