Í tilefni af League of Legends Mid-Season Invitational í Laugardalshöll í maí, hefur Smárabíó, í samstarfi við RÍSÍ, ákveðið að sýna alla leiki mótsins í beinni útsendingu á skemmtisvæði Smárabíós þar sem áhorfendur eru ekki leyfðir í höllinni af sóttvarnarástæðum. Leikirnir verða sýndir á fjölmörgum skjám skemmtisvæðisins og verður tilvalið fyrir aðdáendur mótsins að koma sér vel fyrir og horfa á leiki mótsins og njóta fjölda tilboða sem verða samhliða útsendingunum.
Skemmtisvæði Smárabíós er einn fjölbreyttasti og stærsti leikvöllur landsins þar sem gestir geta leikið sér í sýndarveruleika, lasertag, í leiktækjasal, farið í pool og pílukast, karaoke og margt fleira.
„Undanfarin ár höfum við hjá Smárabíó gert okkar í að greiða veg rafíþrótta á Íslandi með beinum útsendingum, aðkomu að mótum, uppsetningu á rafíþróttasvæði og námskeiðum því tengdu. Þess vegna ákváðum við að grípa tækifærið, þegar við fengum leyfi til að halda áhorfspartí í kringum viðburðina í samstarfi við RÍSÍ, stukkum við á tækifærið. Við ætlum því að setja upp aðstöðu svo gestir okkar geti horft á alla leiki mótsins í þráðbeinni“, segir Ólafur Þór Jóelsson, framkvæmdarstjóri skemmtisvæðis Smárabíós.
„Við höfum átt í frábæru samstarfi undanfarin ár við Smárabíó og Senu og höfum í sameiningu haldið flotta viðburði fyrir íslenskt rafíþróttasamfélag. Okkur hlakkar til að takast á við þetta næsta verkefni í sameiningu og tryggja það að hægt sé að fylgjast með öllum leikjum í beinni frá stærstu rafíþróttamótum sem haldin hafa verið á Íslandi!“, segir Ólafur Hrafn Steinarsson, Formaður Rafíþróttasamtaka Íslands