Happdrætti Háskólans mun draga út stærsta einstaka vinning í sögu happdrættisins þegar ellefufaldur pottur í Milljónaveltunni, 110 milljónir króna, verður dreginn út í desember. Þetta varð ljóst eftir útdrátt gærkvöldsins, þegar potturinn gekk ekki út.
Í Milljónaveltunni er dreginn út 10 milljón króna vinningur í janúar sem hækkar um aðrar 10 milljónir mánuðinn á eftir gangi vinningurinn ekki út. Milljónaveltan hefur ekki gengið út síðan í janúar og verður því 110 milljónir í næsta mánuði. Samkvæmt reglum Happdrættisins verður Milljónaveltan að ganga út í desember, í lokaútdrætti ársins, og því tryggt að einn heppinn miðaeigandi verður 110 milljón krónum ríkari eftir desemberútdráttinn.
Fjöldi miðaeigenda hafði þó góða ástæðu til að gleðjast eftir útdráttinn í kvöld enda skiptu vinningshafar með sér rúmum 113 milljónum í skattfrjálsa vinninga. Ber þar helst að nefna trompmiðaeigandann sem fékk 2,5 milljónir króna og sex sem fengu eina milljón króna hver.
„Happdrætti Háskóla Íslands óskar vinningshöfum innilega til hamingju og ríkir mikil tilhlökkun meðal starfsfólks þegar stærsti vinningur í sögu happdrættisins verður dreginn út,“ segir í tilkynningu.