Inni á söfnunarsíðunni Karolina Fund stendur Steinþór Hróar Steinþórsson eða Steindi eins og hann er kallaður nú fyrir söfnun.
Markmiðið er að safna pening svo hægt verði að fjármagna kvikmynd sem mun bera nafnið Þorsti og verður að sögn Steinda:„Gay vampíru sprautusplatter mynd.” Gerð myndarinnar tengist framleiðslu sjónvarpsþáttanna Góðir landsmenn sem hefja göngu sína á Stöð 2 í næstu viku.
Kvikmyndin Þorsti gerist í litlum bæ, ekki ólíkum Reykjavík þar sem óöld liggur í loftinu og undarlegir glæpir og hrottaskapur virðast vera daglegt brauð. Myndin Fjallar um Huldu sem er grunuð um að hafa orðið valdur að andláti bróður síns og er því til rannsóknar hjá Jens rannsóknarlögreglu. Eftir að hafa verið sleppt úr varðhaldi vegna ónógra sannana hefur hún í engin hús að venda og þvælist um þar til hún rekst á Hjört, mörg þúsund ára gamla, einmanna og samkynhneigða vampíru sem hjálpar henni að vekja Steinda bróður hennar til lífs aftur með hræðilegum afleiðingum á sama tíma og þau þurfa að verjast ágangi Esterar og Birgittu og sértrúarsöfnuði þeirra, sem virðist elta þau á röndum.
Hægt er að styrkja verkefnið inná Karolina Fund með ýmsum fjárframlögum og er manni boðin í staðinn þjónusta að einhverju tagi. Verkefnið má styrkja inn á KarolinaFund.
Hér fyrir neðan má sjá stiklu úr myndinni.