Sölvi lýsir í bók sinni Skuggar sem kom út í vikunni örlagaríkum tímum í lífi sínu. Þrjár konur kærðu hann fyrir kynferðisbrot vorið 2021 eftir að hann grét í umtöluðu viðtali í eigin hlaðvarpsþætti. Málin hafa verið felld niður.
Þá fer Sölvi yfir stjórnleysi sitt í kvennamálum. Hann hafi verið fíkill í viðbrögð frá konum. Hann leitaði sér hjálpar hjá tólf spora samtökum.
„Ég sá þetta á einhvern hátt þannig að ég væri einhleypur og væri ekki að skaða neinn þó að ég setti mig í samband við fullt af konum. En þegar ég skoða það betur sé ég að ég var í raun bullandi óheiðarlegur bæði við sjálfan mig og aðra. Ég seldi mér að stjórnleysið væri mun minna en það var í raun, auk þess sem óheiðarleiki á einu sviði mun óhjákvæmilega færast yfir á önnur svið lífsins,“ segir Sölvi meðal annars í bókinni.
Esther Kaliassa, innanhúshönnuður og kærasta fjölmiðlamannsins Sölva Tryggvasonar, segist stolt af seiglu og hugrekki ástmannsins í kjölfar útgáfunnar á bók hans í samtali við Vísi.
„Að verða vitni að því hvernig lygar, slúður og andstyggð getur haft varanleg áhrif á líf einhvers. Það er ekki í lagi,“ segir Esther í færslu á Instagram.