Karlmaður fór inn í Austurbæjarskóla fyrr í þessum mánuði og lokkaði 9 ára stúlku afsíðis þar sem hann hafði uppi kynferðislega tilburði.
Maðurinn hafði verið að ráfa um skólann í um klukkustund og starfsfólk tekið eftir honum. Sagðist maðurinn vera að leita að frænda sínum. Hann rakst á stúlkuna og tókst að lokka hana með sér á þriðju hæð hússins. Þegar þangað var komið kraup hann niður fyrir framan stúlkuna og þuklaði á rassi hennar og kynfærum utanklæða.
Stúlkunni tókst að losa sig frá manninum og hlaupa niður þar sem hún lét starfsfólk vita af því hvað hefði gerst en manninum tókst að stinga af á meðan verið var að hringja á lögreglu. Starfsfólk skólans gat borið kennsl á manninn sem er fyrrverandi nemandi skólans og var hann handtekinn nokkrum dögum seinna eftir að lögreglan hafði upp á honum.
„Í kjölfar atviksins í dag verður starfsfólk enn betur á verði fyrir utanaðkomandi einstaklingum en áður auk þess sem þetta atvik gefur tilefni til að endurskoða eftirlit við alla innganga í skólann,“ segir í tölvupósti sem skólastjóri sendi á foreldra barna skólans eftir atvikið.
Ævar Pálmi Pálmason, lögreglufulltrúi í kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir að málið sé til rannsóknar hjá embættinu. „Enn hefur ekki verið gefin út ákæra, en rannsóknin er á lokastigi,“ segir Ævar. „Það hefur verið tekin skýrsla af öllum sem við koma málinu.“
Spurður hvort viðkomandi einstaklingur hafi áður komið við sögu lögreglu vegna kynferðisbrota segist hann ekki geta tjáð sig um það. Þetta kom fram á vef Mbl.