„Ég fékk náttúrulega sjokk,“ segir Edda Björk Arnardóttir en hún er móðirin sem nam syni sína þrjá á brott frá Noregi á einkaflugvél.
Edda stígur núna fram í hlaðvarpi Eddu Falak, Eigin konur, og segir sögu sína og greinir frá því að lögreglan hér á Íslandi hafi nú til rannsóknar ásakanir um ofbeldi föðurins gegn börnum sínum, þar á meðal kynferðislegt, líkamlegt og andlegt ofbeldi. Drengirnir höfðu þar búið undanfarin ár hjá föður sínum sem hafði fulla forsjá eftir langa og stranga baráttu.
Edda segir málið eiga sér langan aðdraganda sem megi rekja til samvistaslita hennar og barnsföður árið 2015. Í fyrstu hafi þau farið sameiginlega með forsjá barna sinna fimm, eða allt þar til árið 2017 þegar Edda ákvað að flytja aftur til Íslands. Þá hafi barnsfaðir hennar fyrst verið sáttur við að börnin fylgdu móður heim. Sú afstaða hafi þó tekið breytingum þegar hann komst að því að heima á Íslandi ætlaði Edda að hefja sambúð með öðrum manni.
Edda reyndi hvað hún gat til að áfrýja og fá þessari ákvörðun hnekkt en ekkert gekk. Í gegnum þennan tíma fékk hún þó börnin reglulega til Íslands í umgengni. Á þessum tíma gekk ýmislegt á. Edda veitti því eftirtekt að ekki hafi verið gætt að tannheilsu barnanna sem hjá tveimur drengjunum var orðin töluvert slæm. Eins hafi faðir neitað að framlengja dvöl yngsta drengsins á Íslandi eftir að hann hafði fótbrotnað og mátti samkvæmt læknisráði ekki fljúga með gifsið sem hann fékk. Frekar ákvað faðirinn að hringja í heilsugæsluna og krefjast þess að gifs yrði fjarlægt, þrátt fyrir fótbrot, svo barnið gæti flogið heim á réttum tíma.
Edda telur ljóst að framkoma barnsföður sé ekki lituð af umhyggju fyrir börnunum heldur frekar af gífurlegri stjórnsemi, en slík framkoma hafi einkennt allan þeirra sambúðartíma.
„Algjörlega ljóst um hvað þetta snýst. Það var stjórnun á mér, ráða mér. Eins og hann hafði gert á meðan við bjuggum saman. Þessi reiðistjórnun, fýlustjórnun og þessi stjórnun bara.“
Edda segir að það hafi verið hræðilegt þegar drengirnir voru teknir frá henni og sendir aftur til Noregs. Fulltrúar frá barnaverndanefnd hafi mætt á svæðið ásamt lögreglu, föður og föðurfjölskyldu og hafi greinilegt verið að viðstaddir gerðu ráð fyrir að börnin færu ekki sjálfviljug. Edda segir að sá yngsti hafi verið í svo miklu uppnámi og erfitt sé að rifja það upp. „Það er svo bilað ofbeldi sem átti sér stað þennan morgun,“ segir hún.
Hins vegar hafi stelpurnar tvær verið orðnar það gamlar að ekki var hægt að neyða þær burt gegn þeirra vilja. Faðirinn reyndi þó bæði að sannfæra þær um að koma og þegar það gekk ekki hótaði hann þeim. Edda segist eiga það á upptöku þegar hann sagði við dætur sínar:
„Þið vitið það þá ef þið verðið eftir þá verður ekkert samband meira á milli okkar.“
Í þau fáu skipti sem Edda fékk að hitta drengina sá hún áfram merki um vanrækslu sem olli henni miklum áhyggjum. Eins hafði eldri dóttirin í samtali við sálfræðing opnað sig um ofbeldi föður. Sálfræðingurinn hafði samband við Eddu og sagðist hafa tilkynnt málið til barnaverndar. Þar hafi stúlkan greint frá ofbeldi í hennar garð sem og í garð systkina sinna og var ýmist um að ræða kynferðislegt, líkamlegt og andlegt eftir því hvaða barn átti í hlut.
Edda hefur kært þetta til lögreglunnar á Íslandi og telur að málið sé nú á ákærusviði.
Hægt er að nálgast þáttinn á Patreon-síðu hlaðvarpsins.