The Distinguished Gentleman‘s Ride er áheitahópreið klassískra mótorhjóla og vel klædds mótorhjólafólks sem haldin er út um allan heim. Um 130 þúsund manns hafa skráð sig til leiks á sunnudaginn næsta. Þetta kemur fram á vef Vísis.
Ekið er á klassískum mótorhjólum á sama tíma út um allan heim. Viðburðurinn er til stuðnings á rannsóknum á blöðruhálskrabbameini og baráttunnar gegn sjálfsvígum og munu allir fjármunir sem safnast renna beint til Mowember-samtakanna. Markmiðið er að safna um 7 milljón dollurum, eða rúmlega 800 milljónum í íslenskum krónum talið, til góðra málefna og líta vel út á meðan.
„Eina sem þarf að gera er að skrá sig, byrja að safna áheitum af krafti, grafa upp sitt fínasta púss og bóna mótorhjólið. Njóta þess svo að hjóla í haustblíðunni og vita að góð og nauðsynleg málefni njóta góðs af,“ segir í tilkynningu.
Þetta er í annað sinn sem þessi hópreið fer fram í Reykjavík og í fyrra tóku rúmlega 100 hjól þátt. Staðsetning verður ekki gefin upp fyrr en skráningu er lokið og búið að styrkja málefnið og fer skráning fram hér: Gentlemansride.com.