Unnið er að því að koma upp ríflega einu tonni af hári í rými Listasafns Reykjavíkur. Listamaðurinn, Hrafnhildur Arnardóttir eða Shoplifter, líkir verkinu við fimm hundruð fermetra hárgreiðslu. En í verkinu eru um 1,3 tonn af gervihári sem þarf að greiða til að ná fram fjaðurkenndri áferð.
Verkið nefnist Chromo Sapiens og naut mikilla vinsælda í Feneyjum í fyrra.
„Þetta er abúrd efniviður og ég tek hann úr sínu hlutverki og gef honum nýtt hlutverk hérna sem myndlist.“
„Það er náttúrulega líka mjög umdeilt [gervihárið], af því að þetta er frá Kína og þetta er fjöldaframleitt og við erum að kæfa okkur í öllu þessu fjöldaframleidda. Á sama tíma á myndlist að reyna lifa allt af og á að endast og verða gömul. Ég hugsa að verkin mín séu allavega að fara endast mjög vel,“ segir Hrafnhildur sem endurnýtir hárið á milli verka.
Hljómsveitin HAM samdi tónlist sem ómar inni í verkinu. „Með því að hafa hljóð finnst mér ég fá andardrátt inn í þessa ófreskju hérna,“ segir Hrafnhildur.
Sýningin verður opnuð annað kvöld og stendur yfir í átta vikur.