Þjóðhátíðarlagið í ár, Takk fyrir mig, kemur út í dag. En það var Ingó Veðurguð sem var fenginn til að semja lagið, áður en það kom í ljós að ekkert yrði úr þjóðhátíð í ár. Sem stendur er leyfilegur fjöldi á samkomum 500 manns en alla jafna mæta um 20 þúsund manns á þjóhátíð og var því ákveðið að slá hátíðina af þetta árið.
„Það var búið að biðja mig að gera lagið áður en ÍBV neyddist til að taka þessa ákvörðun. Síðan urðum við hins vegar að ákveða hvort við vildum þá gefa lagið út. Okkur fannst einhver rómantík fólgin í því að gera það, sérstaklega þar sem textinn smellpassar óvænt við ástandið,“ segir hann í samtali við Fréttablaðið
„Lagið heitir Takk fyrir mig og hefur verið að púslast saman í yfir nokkuð langan tíma, sem er mjög óvanalegt fyrir mig. Það mætti í raun segja að lagið hafi nokkurn veginn bara gerst. Bróðir minn samdi svo hluta af því,“ segir Ingó.
„Það að spila það í dalnum gerir svolítið lagið að lagi, þannig það er frekar leitt að fá ekki að spila það núna í Eyjum. En sem betur fer mun ég fá mitt tækifæri til að flytja það þar á næsta ári,“ segir hann.
Ingó hefur í nógu að snúast þessa dagana og er full bókaður á skemmtunum víðs vegar um landið um verslunarmannhelgina.