Fyrrverandi landsliðsþjálfarinn og landsliðsmaðurinn í handbolta, Þorbergur Aðalsteinsson, segir atvik sem átti sér stað um borð í vél Wizz Air, blásið upp af íslenskum fjölmiðlum.
Það var um miðjan ágúst sem Þorbergur var handtekinn á flugvellinum í Stafangri. Flugvél sem Þorbergur var farþegi í, á leiðinni frá Búdapest til Reykjavíkur, var snúið við og lent í Stafangri eftir að Þorbergur átti að hafa reynt að komast inn í flugstjórnarklefa vélarinnar. Var hann sagður hafa verið mjög lyfjaður þegar hann var handtekinn í vélinni. Hafði hann látið ófriðlega áður en hann sparkaði af afli í dyr flugstjórnarklefans. Óánægja Þorbergs var sögð vera vegna súpu sem hann vildi fá en fékk ekki, svo hann reiddist.
Að sögn Þorbergs hefur málið verið fellt niður af lögreglu í Stafangri og ekkert verði aðhafst í málinu. Á Facebook síðu sinni opnar hann sig um handtökuna og segist í kjölfar hennar hafa þurft að sitja undir ásökunum sem hafi fengið mjög á hans nánustu.
„Lögreglan í Stafangri í Noregi hefur fellt niður rannsókn máls á hendur mér, vegna atviks um borð í flugvél Wizz air um miðjan ágúst 2019. Eins og fram hefur komið hjá lögreglunni í Stafangri, var málið blásið upp í íslenskum fjölmiðlum, langt umfram tilefni.
Ég var ekki undir áhrifum áfengis þegar þetta atvik kom upp enda hef ég ekki snert áfengi frá árinu 2012 í kjölfar heilsubrests.
Því miður hef ég þurft að sitja undir ásökunum og sögusögnum frá því að íslenskir fjölmiðlar birtu nafn mitt í tengslum við þetta atvik og hefur það valdið mér bæði skaða og haft slæm áhrif á mína nánustu. Þess vegna er rétt að ég taki fram að lögreglan í Stafangri í Noregi mun ekkert aðhafast frekar í málinu og er því lokið af þeirra hálfu enda er ekkert tilefni til áframhaldandi rannsóknar né aðgerða.“
Þetta kom fram á vef Hringbrautar