Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, er 67 ára í dag.
Hann fékk skemmtilega sungna afmæliskveðju á Facebook í tilefni dagsins frá „Vinum og Vandamönnum“, eins og sönghópurinn kallar sig. Í myndbandinu má sjá meðal annars sjá þá Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar og Björn Inga Hrafnsson, ritstjóra Viljans, bregða fyrir.
„Piltur fetaði framabraut af öllum mætti, lauk doktorsprófi í lýðheilsu og hlaut embætti sóttvarnalæknis hann Þórólfur Guðnason. Og þegar COVID brast á með sínum dauðadómi hófu landsmenn upp raust sína einum rómi: ÞÓRÓLFUR, þú ert landsins eina von!,“segir meðal annars í textanum sem sunginn er.
„Við viljum að þú vitir og finnir að við, og margir margir margir fleiri Íslendingar, standa heils hugar á bak við þig og þín afburða góðu og fórnfúsu störf í þágu lands og þjóðar. Við getum ekki ímyndað okkur hvers konar álag það er að þurfa að taka allar þær ákvarðanir sem þú hefur á herðunum, þurfa að taka tillit til allra þeirra sjónarmiða og hagsmunaaðila sem störf þín snerta, og að halda sönsum í gegnum það allt. En hitt vitum við og sjáum, að þú höndlar það eins og allt annað, með algjörum glæsibrag. Þú ert snillingur og okkur þykir mjög vænt um þig,“ segir í kveðju með myndbandinu.