Síðasti blaðamannafundur Almannavarna, í bili, fór fram í dag. Á fundinum fór Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir yfir tölur dagsins en engin smit greindust síðasta sólarhringinn.
„Í dag er stór dagur þar sem við erum að stíga stór skref í afléttingum á ýmsum takmörkunum hér innanlands,“ sagði Þórólfur meðal annars á fundinum. En tilslakanir á samkomubanni tóku gildi í dag.
„Tveggja metra reglan hefur verið skilgreind aðeins aftur og er orðin valkvæð, getur maður sagt, upp að vissu marki. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvort að þessar stóru aðgerðir og aflétting sem nú er gerð í dag, hversu miklu hún mun skila. Hvort við munum sjá aukningu í smitum á næstu tveimur vikum. Næsta aflétting er fyrirhuguð eftir þrjár vikur og ef allt gengur vel mun ég gera tillögu til ráðherra að við munum fara upp í 500 manns en það skýrist betur.“
Þórólfur sagði einnig að verkefnahópur á vegum ríkisstjórnarinnar um opnun landamæra skilaði af sér í dag og þær tillögur verði væntanlega kynntar á næstunni. Hann muni í framhaldi af því koma með tillögur til heilbrigðisráðherra um opnun landamæra og þar muni hann hafa að leiðarljósi sýkingavarnir og sóttvarnir.