Allar björgunarsveitir á Suðurlandi og í Árnessýslu voru kallaðar út á áttunda tímanum í kvöld til aðstoðar 4o manna hóp sem var í vélsleðaferð við Langjökul. Blindbylur gekk yfir svo hópurinn þurfti að grafa sig í fönn og bíða eftir aðstoð.
Davíð Már Björnsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, sagði í samtali við Fréttablaðið að björgunarsveitir teldu sig vita með nokkurri vissu hvar fólkið væri statt, en það er talið vera við fjallið Skálpanes við rætur Langjökuls. Vonast var til að fyrstu hópar yrðu komnir á staðinn fyrir tíu í kvöld og sagði Davíð að ef allt gengi vel ætti fólkið að vera komið niður í byggð í kringum miðnætti. Það velti þó á því hversu vel það muni ganga að komast seinustu kílómetrana að fólkinu.
Enginn er talinn slasaður í hópnum.