Auglýsing

„Þýðir ekkert að hætta að lifa lífinu“

Dísa Dungal var að hoppa á trampólíni í skemmtigarðinum Rush, þar sem hún segist elska að gera æfingar og hafa gaman með fullorðnum konum, þegar hún lenti illa með átakanlegum afleiðingum. Engu mátti muna að þetta færi á versta veg en læknarnir eru að hennar sögn bjartsýnir á að hún nái sér að mestu leyti.

Dísa var í forsíðuviðtali í Vikunni fyrir tveimur árum síðan þar sem hún sagði meðal annars frá eltihrelli sem áreitti hana og fylgjendur hennar á Instagram. Hér segir hún okkur frá því hvað hefur á daga hennar drifið á síðastliðnum tveimur árum og frá slysinu.

Ég fæ að heyra það í nánast hverjum einasta tíma hjá lækninum mínum hvað ég var heppin að hafa ekki lamast,“ segir Dísa. „Það mátti ekki neinu muna því þá hefði þetta mögulega orðið mænuskaði sem ekki hefði verið hægt að laga. Það voru komnar beinflísar inn í mænuna sem þrýstu á taugar sem leiða niður í fætur. Ein taugin hefur orðið fyrir smá hnjaski og kominn dofi niður í vinstri fót sem er töluvert mátt-lausari en sá hægri. Það lagast með tímanum.“

Dísa var að hoppa á trampólíni eftir að húsinu hafði verið lokað í Rush en „þátttakendurnir voru allir farnir og nánast engin eftir í húsi,“ segir hún, „nema ein vinkona mín og síðasti starfsmaðurinn einhvers staðar að ganga frá. Það var dimmt, ég var þreytt og ekki með hugann við það sem ég var að gera, svo mér tókst einhvern veginn að klúðra þessu eins og slysin gerast oftast. Ég lenti illa og hryggurinn í mér mölbrotnaði. Ég kallaði strax á hina stelpuna að hringja á sjúkrabíl undir eins. Ég hef aldrei á ævinni upplifað eins mikinn sársauka. Ég vissi ekki að það væri hægt að finna svona mikið til án þess að missa meðvitund. Ég gat ekki hreyft mig en ég fann að einhverra hluta vegna varð ég að fetta bakið af öllum lífs- og sálarkröftum. Líklega var líkaminn að reyna að segja mér eitthvað því læknarnir sögðu að það liti út fyrir að ég hefði náð að spengja mig sjálf áður en ég fór í aðgerðina með því að fetta bakið svona. Síðan kom sjúkrabíll og ég var flutt niður á Landspítala. Auðvitað var það enginn dans á rósum en ég á öllu fagfólkinu þar líf mitt að þakka.“

Gott form bjargaði henni
Í ljós kom að fjórir hryggjarliðir voru brotnir og Dísa þurfti á aðgerð að halda. Hún þurfti þó að bíða í dá-góða stund áður en loks kom að aðgerðinni. „Það þurfti að kalla til teymi af sérfræðilæknum og það tók einn og hálfan sólarhring. Á meðan ég beið varð ég að liggja hreyfingarlaus með púða undir mjóbakinu því það mátti alls ekki hreyfa við neinu.“

En þetta fór betur en á horfðist?
„Já, sannarlega. Læknarnir sögðu að mögulega hefði ekki farið verr vegna þess að ég er með sterk bein og líka af því að ég hefði líklega náð að spengja mig sjálf áður en ég fór í aðgerðina eins og ég sagði áðan. Ég tengi það dálítið við það að líkaminn hafi sagt mér að halda fettunni í bakinu. Líkaminn er svo magnaður og ég hef kynnst mínum á nýju leveli eftir þetta allt saman, hvernig hann talar og bókstaflega ræður þessu ferðalagi. Frá því ég var unglingur hefur hreyfing, líkamsrækt og vellíðan verið ástríða mín en ég hef aldrei á ævi minni upplifað jafn sterkt mikilvægi þess að vera í góðu formi eins og þegar ég lenti í þessu slysi. Það ekki bara hjálpaði mér heldur bjargaði mér. Ég væri bókstaflega lömuð fyrir neðan mitti annars. Ég væri líklega með krónísk vandamál og verki sem myndu leiða út í alla útlimi og föst í vítahring endalausrar endurhæfingar sem aldrei tæki enda vegna þekkingarleysis á eigin líkama og hræðslu við að gera eitthvað rangt. Eins og allir ættu að vita er gott að vera í góðu líkamlegu formi en oft og tíðum leyfa margir sér að vanrækja líkamann með því að hreyfa sig lítið og borða óhollt ásamt því að vinna yfir sig og sofa illa. Ég ætla því bara að minna á það hér og nú hvað er mikilvægt að huga vel að heilsunni, alltaf.“

„Þýðir ekkert að hætta að lifa lífinu“
Dísa segir læknana bjartsýna á að hún nái sér að mestu leyti til fulls þ.e.a.s. ef ekki komi fleiri bakslög, þótt endurhæfingin muni taka langan tíma. „Ég er að slá öll met sem fólk hefur séð í bata, þökk sé baklandi mínu og þekkingu en er líka að læra að gefa líkamanum rétt jafnvægi milli álags og hvíldar og sá eini sem getur sagt mér til um það er líkaminn sjálfur á þessu stigi. Ég viðurkenni að ég hef aldrei verið rosalega góð í að hlusta á hann og hef gengið á hann eins og maskínu út af ástríðu minni fyrir hreyfingu og útivist. Ég þarf bara að vera virkilega vel til staðar til þess að hlusta á hvað hann er að segja. Núna fær hann alveg að ráða og þótt mér finnist það oftar en ekki erfitt að hvíla mig svona mikið þá er ég farin að sjá að það er alveg gott líka.“

Heldurðu að þú farir á trampólín aftur í bráð?
„Kannski ekki í bráð en um leið og ég er búin að ná mér nógu vel. Þetta slys var bara slys en slysin gerast þegar maður er kærulaus og ekki að fylgjast með. Ég ætla bara alltaf að fara varlega næst. Maður lærir af þessu og það þýðir ekkert að hætta að lifa lífinu. Þetta hefur verið mikill lærdómur og einn sá stærsti hefur verið að sjá hvað ég er ótrúlega rík af dásamlegu og hjálpsömu fólki. Maður sér það kannski ekki alltaf, en fólkið manns er til staðar þegar á reynir. Allir sem í kringum mig eru gripu mig og sturtuðu yfir mig ást og stuðningi þegar ég lenti í slysinu. Ég mun aldrei geta lýst þakklætinu sem ég ber til allra sem að hafa komið en ég hef grátið meira úr gleði en sorg í gegnum þetta.

Primal og Hreyfing hafa veitt mér ómetanlegan stuðning og elsku gengið mitt hjá Rush hefur gert ómetan-lega hluti fyrir mig, alveg óumbeðið. Eftir að hafa verið þrútin og illa haldin af spítaladvöl og lyfjum hefur the Ward Group stutt mig með vítamínum og sunekos-meðferðum sem hefur verið algjör draumur og ég mæli mikið með þeim. Ég fékk sendingu af CBD-vörum frá Healing Iceland sem björguðu mér frá rosalegu ofnæmi sem ég fékk á spítalanum fyrir þvottaefninu sem þar er notað, svona til að bæta gráu ofan á svart. Þau hjá Silkisvefni færðu mér silki til að hjálpa mér að sofa og ég gæti talið lengi áfram en ég myndi bara fylla blaðið,“ segir Dísa brosandi.

„Nú hef ég fundið hamingjuna á ný og sjaldan
verið jafn hamingjusöm og ánægð með lífið,
tilveruna og allt sem ég hef upplifað.“

Búin að fara í gegnum mikla andlega hreinsun
Dísa sagði frá því í forsíðuviðtali í Vikunni fyrir tveimur árum að hún hefði verið áreitt af eltihrelli. Þegar blaðamaður spyr hvort hún hafi fengið frið síðan þá svarar Dísa brosandi: „Ég var nú eiginlega bara búin að gleyma honum og alveg verið látin í friði síðan ég steig fram með söguna mína. Fyrst á eftir tók ég eftir smávægilegum atriðum sem síðan hurfu á endanum.“

Dísa segir annars mikið hafa gengið á í lífinu síðustu tvö árin og hún hafi farið í gegnum mikla andlega hreinsun. „Ég er frekar nýlega komin úr mjög erfiðu sambandi sem tók mig langan tíma að loksins binda endi á og gekk ég frá því alfarið gegn vilja hjarta míns. Mér finnst voða næs að vera í sambandi og er alveg týpan í það. Ég elska að elska og er kannski svolítið óheppin með það hvað ég get fallið harkalega fyrir einhverjum og hugmyndinni minni að þeirri framtíð sem ég hef séð fyrir mér, þannig að mig langaði ekkert að verða einhleyp. Ég var ástfangin upp fyrir haus en svo splundraðist veröldin þegar hann ákvað fyrst að slíta sambandinu tímabundið til að leita eitthvert annað og koma svo aftur án þess að segja mér neitt. Eftir það varð þetta bara aldrei eins og það var komin mikil sorg og stórt sár innra með mér. Við reyndum að laga samskiptin en þetta var farið að halda aftur af mér andlega og líkamlega.

Ég var svo utan við mig að ég var farin að klúðra ótrúlegustu hlutum. Þegar þetta var aðeins farið að hafa áhrif á vinnuna mína fannst mér nóg komið. Ég hreinsaði rækilega til í lífinu mínu; lokaði á þá sem höfðu sært mig og bara alla sem mér fannst eins og væru á óheiðarlegum og eigingjörnum forsendum í þessari vegferð sem lífið er. Ég færði mig frá djammi og öllu sem mögulega gæti raskað jafnvæginu mínu. Ég hef lært að setja mörk miklu fyrr og bjóða ekki hverjum sem er of nálægt mér. Þetta varð til þess að ég ákvað að fara að ferðast og finna hamingjuna mína aftur úti í heimi. Í dag er ég rosalega varkár gagnvart fólki og vel vandlega hverjir eru kring um mig. Vinir mínir og vandamenn sem eru í hringnum mínum mega vita að það er eitthvað einlægt og fallegt sem ég finn fyrir í fari þeirra. Ég á heilsu mína að þakka öllum þeim sem hafa stutt mig í gegn um þetta.“

 

Tekur áhættur og prófar nýja hluti
Dísa segist vera búin að ferðast út um víða veröld, njóta lífsins og hafa gaman á síðustu tveimur árum. „Ég flúði bókstaflega allt sem hafði verið að draga mig niður hérna heima og fór út í sólina að kynnast nýju fólki sem þekkti enga hér heima. Mig langaði bara að komast alveg í burtu frá öllu sem minnti mig á Ísland sem ég svo sannarlega gerði. Á þessu ári er ég búin að fara til Tel Aviv, sem er uppáhaldsborgin mín í Ísrael, heimsótti Búdapest, fór til Spánar að læra kitesurfing, til Noregs á afmælinu mínu þar sem ég naut þess að gista á æðislegum hótelum í bæði Ósló og Bergen. Ég fór í helgarferð til Helsinki á stóran viðburð þar sem ég kynntist rosalega mörgu, flottu viðskiptafólki. Þaðan flaug ég síðan til Möltu að læra köfun sem var magnað. Ég viðurkenni að ég var alveg skíthrædd við það enda er sjórinn ekkert lamb að leika sér við, en eftir tvo daga af þjálfun var ég komin yfir hræðsluna og þetta varð rosalega skemmtilegt. Hvílíkt ævintýri og hvílík upplifun að kafa niður í aðra veröld. Ég er búin að kynnast alls konar fólki á þessum ferðalögum mínum, sem lifir alls konar lífsstíl. Ég tók til mín allt það besta sem ég lærði frá þeim og sá einnig hvað það er sem dregur það niður.“

Hún segist vera á umfangsmiklu ferðalagi þar sem hún heldur áfram að taka áhættur og prófa nýja hluti. „Þátttakan í keppninni Miss Universe kenndi mér mikilvægi þess að setja pressu á sjálfan sig og fara út í óvissuna því það er þar sem maður vex og þroskast mest. Ísland er svo brjálæðislega lítið að það er varla hægt að kynnast neinum hérna án þess að viðkomandi þekki að minnsta kosti tíu sameiginlega vini ykkar og veit líklega hluti um þig sem hann á ekkert að vita. Ég veit sjálf allt of mikið um fólk sem ég þekki lítið sem ekki neitt og á alls ekkert að vita neitt um. Fólk sem þekkir mig ekki neitt og veit þá örugglega alls konar sögur um mig sem kemur þeim ekkert við heldur.“

Viðtalið má lesa í heild sinni á vef Birtings.

Texti: Guðrún Óla Jónsdóttir
Myndir: Rakel Rún Garðarsdóttir

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing