Tilslakanir á sóttvarnaraðgerðum munu taka í gildi næstkomandi mánudag, 8. febrúar. Þessi nýja reglugerð mun gilda í þrjár vikur.
Samkvæmt nýju reglugerðinni mega barir opna á ný, auk búningsklefa í líkamsræktum. Þá verður 150 manns heimilt að koma saman í verslunum, söfnum, kirkjum og leikhúsum ef húsnæðið er nógu stórt, en almenn fjöldatakmörk verða ennþá bundin við 20 manns.
„Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur samþykkt tillögur sóttvarnalæknis sem fela í sér varfærnar tilslakanir á samkomutakmörkunum frá 8. febrúar. Almennar fjöldatakmarkanir verða áfram 20 manns en með rýmri undantekningum en hingað til. Reglur um 2 metra nálægðarmörk og grímuskyldu verða óbreyttar. Heimilt verður að opna að nýju skemmtistaði, krár, spilasali og spilakassa að uppfylltum skilyrðum. Fjöldatakmörk gesta í sviðslistum verða aukin úr 100 í 150 manns og trú- og lífsskoðunarfélögum verður heimilt að halda athafnir, þar með taldar útfarir, með 150 manns að hámarki. Hámarksfjöldi viðskiptavina í verslunum verður 150 manns með hliðsjón af fermetrafjölda og sama gildir um gesti á söfnum. Heilsu- og líkamsræktarstöðvar mega opna búningsaðstöðu að nýju og æfingar í tækjasal verða heimilaðar með skilyrðum. Ný reglugerð sem kveður á um þessar tilslakanir gildir til og með 3. mars næstkomandi,“ segir í tilkynningu sem birtist í dag á vef heilbrigðisráðuneytisins
Veitingastaðir þar sem áfengisveitingar eru leyfðar, þar með talin veitingahús, kaffihús, krár og skemmtistaðir, skulu ekki hafa opið lengur en til kl. 22.00 og veitingar skulu aðeins afgreiddar gestum í sæti. Ekki er heimilt að hleypa inn nýjum gestum eftir kl. 21.00.