Lögregluembætti víðsvegar um landið hafa sett í sölu ungbarnafatnað en um er að ræða samfellur fyrir 6-12 mánaða annars vegar og 12-18 mánaða hins vegar. Lögreglan á Suðurnesjum vakti athygli á hönnun „tískulöggudeildarinnar“ á Facebook-síðu embættisins en þar segir að samfellan kosti 4.000 krónur.
„Tískulöggudeildin okkar var að taka þetta upp úr kössum og hægt að nálgast hjá okkur á lögreglustöðinni við Brekkustíg í Njarðvík“
„Yngja í liðinu? Nei ekki alveg en við erum farin að huga að yngstu kynslóðinni og nú geta þau farið að undirbúa sig fyrir inngöngu í lögguna nánast beint af fæðingardeildinni 😉 Tískulöggudeildin okkar var að taka þetta upp úr kössum og hægt að nálgast hjá okkur á lögreglustöðinni við Brekkustíg í Njarðvík,“ segir í stöðuuppfærslu lögreglunnar á Suðurnesjum og er sami fatnaður auglýstur hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum.
Þá kemur fram í stöðuuppfærslu „tískulöggudeildarinnar“ að embættið eigi einnig til boli og húfur fyrir eldri systkinin. Þá auglýsir lögreglan í Vestmannaeyjum einnig derhúfur til sölu á 1.500 krónur.
Nútíminn sló á þráðinn til Vestmannaeyja og spurðist fyrir um þennan glæsilega fatnað og hver það væri eiginlega sem stæði á bakvið hönnunina og nyti góðs af sölunni.
Vinsælar gjafir í mörg ár
„Þetta er búið að vera í mörg ár. Ég á orðið unglingsstráka sem áttu svona fatnað en það er ekki embættið sem er að selja þetta heldur er þetta íþróttasamband lögreglunnar sem nýtur góðs af þessu,“ segir Stefán Jónsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum.
Íþróttasamband lögreglunnar hefur haldið úti öflugu íþróttastarfi til margra ára og fara íslenskir lögreglumenn á hin ýmsu íþróttamót víðsvegar um heiminn á hverju ári. Þá eru haldin fjölmörg íþróttamót á hverju ári hér heima og kepptu lögreglumenn til dæmis í pílukasti í lok febrúar.
„Þetta eru vinsælar gjafir,“ segir Stefán en fyrir þá sem hafa áhuga á að næla sér í heitasta löggutískufatnaðinn á ungbörn í dag er um að gera að hafa samband við embættið í sínu bæjarfélagi og óska eftir samfellu, húfum, bolum eða derhúfum.