Talsverður erill var í nótt hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Alls voru tíu einstaklingar teknir í hald vegna brota á borð við fjárkúgun, ólöglega dvöl í landinu og frelsissviptingu. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Þrír menn voru handsamaðir um tvö leytið í nótt í Háaleitis- og Bústaðahverfi og eru þeir grunaðir um fjárkúgun og frelsissviptingu.
Um hálf átta leytið í gærkvöldi voru þrír menn færðir í fangageymslur vegna gruns um sölu og dreifingu vímuefna.
Klukkan rúmlega níu stöðvaði lögregla bíl í Háaleitis- og Bústaðahverfi og er ökumaðurinn grunaður um að dvelja ólöglega hér á landi.
Maður var handtekinn í Mosfellsbæ rétt fyrir klukkan tíu í gærkvöldi og er hann grunaður um líkamsárás. Hann var færður í fangageymslur.
Þá barst tilkynning, skömmu fyrir miðnætti, um æstan mann í miðbæ Reykjavíkur sem reyndist vera í annarlegu ástandi. Hann var einnig vistaður í fangageymslu.