Tíunda hljóðversplata Bjarkar er væntanleg í lok mánaðar og ber nafnið Fossora. Platan er mjög persónuleg, textarnir fjalla meðal annars um móðurmissi Bjarkar og börn hennar vinna með henni á plötunni.
Hægt er að panta sérstakar vínylútgáfur af Fossora á vef Smekkleysu, en um er að ræða takmarkað upplag og er þegar upplagið í túrkíslitnum orðið uppselt. Um er að ræða níu mismunandi upplög og gerðir. Dæmi má sjá að neðan.
Nýtt lag af væntanlegri plötu Bjarkar kom út á dögunum en það er lagið Ancestress. Lagið er ort eftir móður Bjarkar og er systurlag Sorrowful Soil sem einnig er sungið til móður Bjarkar og er að finna á plötunni. Sonur Bjarkar, Sindri, minnist ömmu sinnar á Ancestress, útsetur raddir og syngur viðlag lagsins. Björk segir Sindra hafa verið mjög tengdan ömmu sinni.
„Hún var bara 40 þegar að hann fæddist þannig að hann langaði að þakka fyrir sig og gerir raddútsetningar í lagið um hana,“ sagði Björk í Viðsjá á Rás 1.
Dóttir Bjarkar kemur einnig fram á plötunni og þetta er í fyrsta sinn sem börn hennar eru með henni á plötu. „Þau eru bæði orðin fullorðin, þá geta þau sagt nei ef þau vilja það ekki.“ Hún segist alltaf hafa viljað vernda börn sín fyrir frægðinni og leyfa þeim að eiga sjálfstætt líf.
„Ég held að það sé svolítið erfitt stundum að vera barn frægs fólks, að þú sért að gera eitthvað á eigin forsendum.“ Þegar Björk sjálf var stelpa gaf hún út plötu og fékk að reyna frægðina á eigin skinni. „Þegar þú ert ungur, þú segir já við einhverju, eins og ég prófaði að gera plötu þegar ég var 11 ára og allt í einu vita allir hver þú ert í strætó, það er ekkert grín.“