Auglýsing

Tölvuleikjaiðnaðurinn á Íslandi undirritar sáttmála

Tölvuleikjaiðnaðurinn á Íslandi vinnur markvisst að því að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni og ofbeldi.

 Undirritun sáttmála um öruggt starfsumhverfi fór fram í höfuðstöðvum CCP í Grósku í dag. 

Fulltrúar Samtaka leikjaframleiðenda (IGI), Rafíþróttasamtaka Íslands (RÍSÍ) og Game Makers Iceland (GMI) undirrituðu sáttmála um öruggt starfsumhverfi í morgun fimmtudaginn 16. september í höfuðstöðvum CCP í Grósku.

Sáttmálinn er afdráttarlaus og sendir skýr skilaboð um heilbrigt starfsumhverfi í tölvuleikjaiðnaði. Í sáttmálanum kemur fram að samtökin líða ekki einelti, kynferðislega eða kynbundna áreitni eða ofbeldi af neinu tagi og munu markvisst vinna að því að koma í veg fyrir slíka óæskilega hegðun, grípa til aðgerða til að stöðva hana og koma í veg fyrir að hún endurtaki sig auk þess að styðja við þolendur.

Samtökin telja að stjórnendur og leiðtogar innan sinna raða séu í lykilstöðu til að móta uppbyggilega menningu og góða ásýnd tölvuleikjaiðnaðarins á Íslandi. Öruggt starfsumhverfi verður einungis búið til með því að unnið verði í anda sáttmálans og með því að sýna faglegt viðmót sem einkennist af tillitssemi, kurteisi, virðingu og umburðarlyndi.

 Þorgeir F. Óðinsson, formaður Samtaka leikjaframleiðenda: „Leikjaiðnaður hefur vaxið hratt á undanförnum árum og starfsmönnum fjölgað ört. Til þess að við náum áframhaldandi efnahagslegri velsæld skiptir öllu máli að hver og einn upplifi virðingu og hvatningu í starfi. Jákvæðni er undanfari mannlegrar velgengni. Við þurfum öll gott og hvetjandi umhverfi ef við ætlum að ná árangri saman.“

 Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður Rafíþróttasamtaka Íslands: „Það er markmið okkar hjá RÍSÍ að byggja rafíþróttir fyrir alla og þá er mikilvægt að allir geti upplifað sig velkomna og örugga. Það gerist ekki af sjálfu sér, en rétt eins og við viljum vera leiðandi í barna- og unglingastarfi rafíþrótta í heiminum, þá viljum við einnig vera leiðandi þegar kemur að uppbyggingu á öruggu rafíþróttaumhverfi sem er laust við fordóma og áreitni. Umræðan í samfélaginu síðastliðna mánuði hefur sýnt það að mikilvægt er að hafa skýra umgjörð um þessi erfiðu mál. Því vildum við hvetja alla aðila innan okkar raða til þess að setja sér skýrar verklagsreglur og sameinast um það að fordæma hvers kyns ofbeldi og áreitni.“

Alexandra Diljá Bjargardóttir, meðstofnandi grasrótarsamtakanna Game Makers Iceland: „Samtökin okkar hafa alltaf lagt mikla áherslu á að öllum líði eins og þau séu örugg og velkomin óháð kyni og bakgrunni. Við erum þess vegna gríðarlega stolt af því að fá að taka þátt í þessu mikilvæga skrefi og taka skýra afstöðu ásamt iðnaðinum gegn hvers kyns ofbeldi. Það er mikilvægt að senda þau skilaboð til starfsmanna og iðkenda að þau mál sem upp koma sem tengjast einelti, áreitni eða ofbeldi verði tekin föstum tökum og ekki sópað undir teppi.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing