Auglýsing

Tónleikar fyrir kindur á Reykjavik Fringe Festival!

Hvers konar tónlist vilja sauðkindur hlusta á? Þessari spurningu ætla Hafdís Bjarnadóttir og Passepartout Duo að reyna að svara á tónleikum á Árbæjarsafni 3. júlí nk. kl. 17:00.  Viðburðurinn er einn af mörgum á sviðslistahátíðinni Reykjavik Fringe Festival, en miðasala fer fram á vefsíðu hátíðarinnar, www.rvkfringe.is.

Tónskáldið og rafgítarleikarinn Hafdís Bjarnadóttir hefur undanfarið heimsótt sveitabæi, hljóðritað fjárhúshljóð og spilað á gítar fyrir kindurnar til að vinna tónlist út frá þessum heimsóknum. Hugmyndina að því að semja tónverk fyrir kindur fengu slagverksleikarinn Christopher Salvito og píanóleikarinn Nicoletta Favari ásamt Hafdísi þegar þríeykið var á tónleikaferðalagi í Færeyjum fyrir nokkrum árum, en þar er varla þverfótað fyrir fé. Tríóið ætlar að bjóða hlustendum upp á skemmtilega og öðruvísi tónleika þar sem kindur koma við sögu á margvíslegan hátt, utandyra hjá sauðfé Árbæjarsafns ef veður leyfir en að öðrum kosti innandyra.

Tónverkið „Sauðatónar“ er nútíma óður til kvöldvöku gamla tímans, þegar fjölskyldur sátu saman í baðstofum, unnu úr ullinni og hlýddu á sögur og annað skemmtiefni á meðan. Gestum er boðið að hafa með sér handavinnu til að dunda við á meðan á tónleikunum stendur. Tríóið lofar notalegri stund og óformlegri stemmningu fyrir kindur og fólk á öllum aldri.

Verkefnið er styrkt af Norrænu menningargáttinni, Norræna menningarsjóðnum, Tónskáldasjóði RÚV og STEFs og Tónlistarsjóði Rannís.

„Fylgist með Sauðatónum á ferð um landið í júlí og utan landsteinanna eftir það!,“ segir í tilkynningu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing