Á morgun, laugardaginn 13. janúar, verða tónleikar á KEX og eru það þau deep.serene, MV Elyahsyn, Holy Hrafn og Flyguy sem stíga á svið. Þess má til gamans geta að tónleikarnir verða þeir síðustu sem deep.serene heldur fyrir fæðingarorlof. Hún mun því á kvöldinu bætast í hóp þeirra íslensku tónlistarkvenna sem hafa stigið á stokk með barn undir belti, en hún á von á barni í lok febrúar á árinu.
Það verður úr mörgu að velja á tónleikunum enda tónlistarmennirnir með nokkuð fjölbreyttan bakgrunn. Tónlistarmennirnir sem koma fram bjóða öllum frítt á tónleikana sem hefjast á slaginu 20:00 en við skulum kíkja á hvaða listamenn þetta eru…
Deep.serene
Deep.serene á að baki útgáfu á breiðskífunni X, og sjö laga safni til viðbótar, en tónlistarkonan, sem heitir fullu nafni Halldóra Aguirre, hefur verið að gefa út tónlist frá því á árinu 2022. Tónlistin hennar hefur tekið þó nokkrum breytingum á þessum stutta tíma. Hún hefur áður verið kennd við dreampop tónlistarstefnuna þar sem draumkenndir tónar og melankólískir textar ráða för en í lagasafni hennar má finna lög sem svipa meira til alternatív rokks með elektrónisku ívafi, enda er Halldóra mikill aðdáandi rokks og grunge senunnar.
Platan X kom út seint á árinu 2022 og var unnin í samstarfi við Bjarka Ómarsson og Tómasi Jónsson og er þema hennar rokk, leður og mistík með elektróník að leiðarljósi. Á síðasta ári vann deep.serene aðallega með þeim Þorsteini Elvari Þórssyni trommuleikara og Matthíasi Mána Jónassyni hljóðmanni við útgáfu á þeim lögum sem komu út það ár. Trommuleikur Þorsteins má til að mynda heyra í lögum eins og darkasitgets og guide/you/me og tók hann þátt í tveimur útgáfutónleikum deep.serene snemma á árinu 2023 sem haldnir voru til heiðurs útgáfu á plötunni X, ásamt Víði Rúnarssyni gítarleikara í Spacestation. En deep.serene stígur ein upp á svið á KEX í janúar og lagalistinn spannar lög sem komu út á síðasta ári sem og nokkur sem enn eiga eftir að líta dagsins ljós.
MV Elyahsyn
MV Elyahsyn er sviðsnafnið á rísandi rappara sem frontar hljómsveitirnar Regn, annars vegar, með Adam Thor Murtomaa og Vigfúsi Karli Steinssyni, og 1S2B, hinsvegar, með Jökli Loga. Hann hefur unnið að tónlist með fólki á borði við Alfreð Drexler, Royal Gíslason, Holy Hrafni sem og Arnari í Úlfur Úlfur. Á döfinni eru útgáfur á plötum sem hann vinnur í sameiningu með Play Vendetta, Ash Walker og Lord Pusswhip. Rapparinn sem heitir fullu nafni Skúli Isaaq Qase leggur áherslu á tilfinningatjáningu og hráleika í textunum sínum, en textana semur hann á íslensku.
Holy Hrafn
Holy Hrafn, sem heitir fullu nafni Óli Hrafn Jónasson, er íslenskur tónlistarmaður sem hefur verið að gefa tónlist frá árinu 2015. Tónlist hans hefur þróast í allar áttir en var áður kennd við hiphop tónlistarstefnuna. Nýverið gaf hann út smáskífuna Jákvæði sem hann lýsir sem „borderline of hress og kát“. Stuttu fyrir það kom út „rapp-sögur úr Pandabæ tbl. 3“ og fyrr á árinu 2023 kom út funk skífan Fjólublátt Flauel sem er samin af „ímyndaða funkbandinu frá Pandaríkjunum“, Super Shady. Holy Hrafn er þekktur fyrir að nýta húmorinn í tónlistinni sinni og hafa margir tónlistarunnendur gaman af frumlegum textum og tónlistarsmíðum hans. Hann hefur unnið með fjölda manns á borð við Ella Grill, Kött Grá Pjé, Byrki B, Heimi rappara, Stelpurófunni, Dr. Vigdísí Völu, Telmu Huld og ThrillaGTHO, en sá síðarnefndi er með honum í hljómsveitinni Eldmóðir. Þá hafa þeir MV Elyahsyn sömuleiðis unnið að mörgu saman eins og fram hefur komið.
Það er margt á döfinni hjá Holy Hrafni en í bígerð er funkplata sem heitir Super Shady – Kolbikasvart Kashmír sem kemur út snemma á árinu (2024) ásamt annarri plötu hljómsveitarinnar Eldmóðir sem ber titilinn Láttu Loga. Svo er dúóið Dr Vigdís Vala & Holy Hrafn að leggja lokahönd á plötu sem hann lýsir sem „svæsinni“.
Flyguy
Flyguy er svo fjórði liðurinn í tónleikaröðinni en maðurinn á bak við sviðsnafnið er Helgi Þorleifur Þórhallsson. Flyguy gaf út sína fyrstu plötu í lok árs 2022 sem ber heitið Bland í poka sem skartar 12 lögum, en hafði fram að því verið að semja tónlist um þó nokkuð skeið. Hann lýsir tónlistinni sem trapp-tónlist í grunninn sem hann byggir svo ofan á með innblástur úr mörgum mismunandi tónlistarstefnum. Hann vandar sig við tónsmíðarnar og hefur til að mynda lagt mikið upp úr íslenskri textagerð en hann leggur sérstaka áherslu á þætti eins og stuðla, höfuðstafi og innrím þegar hann semur texta. Á döfinni hjá Flyguy er að opna á möguleikann á samstarfi við annað tónlistarfólk ásamt því sem hann hannar föt.
Fjórmenningarnir heita miklu stuði og má taka fram að það verður ókeypis fyrir fólk að mæta á tónleikanna. Í lok tónleikana verða svo í boði ljúfir tónar í boði Alfreðs Drexler sem verður með DJ-set í tilefni kvöldsins.