Leikfélag Menntaskólans á Akureyri ætlar í samstarfi við Akureyrarbæ að gróðursetja eitt tré fyrir hvern seldan miða á sýningu leikfélagsins.
Þetta er vissulega táknrænt og skemmtilegt þar sem verið er að planta skógi en sýning LMA þetta árið heitir Inn í skóginn. Þetta er gert af frumkvæði LMA og voru þau svo heppin að fá Akureyrarbæ með sér í lið í verkefnið.
Hugmyndin kviknaði í fyrstu hjá krökkum leikfélagsins sem grín en þegar hugmyndin var skoðuð var hún alls ekki það galin. Leikfélagið hafði samband við Akureyrarbæ og var það ákveðið að þetta yrði að veruleika. Trén verða gróðursett af LMA-ingum í sumar á landi innan bæjarmarka Akureyrar. LMA vill með þessu hugsa vel um umhverfið, koma menntskælingum í snertingu við náttúruna og að skilja eftir sig áþreifanlegar minningar um sýninguna þetta árið, Inn í skóginn.