Það var fullt út úr dyrum þegar galleríð Skuggasund opnaði samsýninguna Syndikatið að Ingólfsstræti 2b á dögunum.
Sýningin inniheldur verk eftir þrjá þekkta listamenn en einn þeirra, Hafsteinn Michael, stýrir henni. Þá var rýmið endurbætt af Jóni Sæmundi Auðarssyni, betur þekktum sem Nonna Dead, en hann – líkt og hinir tveir – hafa tengingu við húsnæðið en þar til að mynda bjó Nonni um hríð árið 1994, þegar endurbæturnar fóru fram.
Í dag, Þorláksmessu, mun hljómsveitin Inferno, koma fram en þeir Hafsteinn Michael og Ómar Stefánsson, sem einnig tekur þátt í sýningunni, ætla að dusta rykið af gömlum töktum og leika fyrir gesti og gangandi. Það verður því lifandi tónlist og fjör á þessari frábæru samsýningu en Inferno stígur á stokk um 20:00 í kvöld.
Nútíminn fjallaði um opnun sýningarinnar en þá var haft eftir einum af eigendum og verkefnastjóra Skuggasunds, að boðið yrði upp á ljúfa tóna á meðan á sýningunni stendur. Hann hvatti alla til að mæta og skoða verk eftir þessa frábæru listamenn og á sama tíma kynna sér þetta glæsilega en jafnframt frumlega gallerí í hjarta Reykjavíkur.
Fyrir þá sem rata ekki að Ingólfsstræti 2b að þá er gengið inn um sund sem er gegnt Prikinu í miðbæ Reykjavíkur. Nútíminn mælir með sýningunni en Skuggasund er skemmtileg viðbót við menningarlíf Reykjavíkurborgar sem blómstrar nú sem aldrei fyrr.