Kvikmyndagerðarmaðurinn Heimir Bjarnason leggur í sýningarferðalag um landsbyggðina í vikunni til að kynna kvikmyndina Þrot sem frumsýnd verður 20. júlí á höfuðborgarsvæðinu.
Heimir vill gefa landsbyggðinni forskot á sæluna með því að endurvekja hefð svonefndra roadshow sýningarferða. Í viðtali við Fréttablaðið segir leikstjórinn að hann ætli að túra um landið ásamt hundinum sínum Ripley um landsbyggðina til að kynna frumraun sína og prófa eitthvað öðruvísi með stemningu í kringum forsýningar.
„Þetta var líka vinsælt í gamla daga, þegar myndir voru á filmum og ekki var hægt að senda á milljón staði í einu, að byrja með forsýningar utan við bæjarmörkin.“
Hugmyndina fékk Heimir þegar tökur á heimildarmynd stóðu yfir á Hótel Laugabakka í vor. „Ég labbaði inn í sal þar sem var risastórt tjald og hljóðkerfi og fór að hugsa með mér hvað það væru margir svona staðir víða á landinu, með frábæra aðstöðu til að sýna mynd,“ segir hann. „Ég talaði við hótelstjórann sem var mjög spenntur fyrir þessu og þaðan fór boltinn að rúlla.“
Heimir er sjálfur mikill áhugamaður um kvikmyndahús og er spenntur fyrir því að upplifa bíóstemninguna á landsbyggðinni.
„Það er líka gaman að þetta eru ekki allt bíóhús, en þau voru það og mér finnst það mjög heillandi,“ segir hann. „Að koma í þessar byggingar sem voru kvikmyndahús fyrir einhverjum áratugum og gera þau að bíó í eitt kvöld í viðbót.“
Grunsamlegt andlát skekur smábæjarsamfélagið á Hvolsvelli og líf einmana sendilsins Rögnu er umturnað þegar hálfbróðir hennar, Júlíus, hverfur í kjölfar atviksins. Gömul sár spretta upp og verða að nýjum en þegar hin uppreisnargjarna Arna flækist í atburðarásina er ljóst að eitthvað ógnvægilegt kraumar undir yfirborðinu. Þá reynir á fjölskylduböndin, lífsgildin og tryggðina sem aldrei fyrr enda verður kaldur sannleikurinn þyrnum stráður, jafnvel lífshættulegur.