Auglýsing

Umsóknarfrestur fyrir RVK Fringe brátt á enda

Alþjóðlega jaðarlistahátíðin RVK Fringe fer fram 3.-11. júlí næstkomandi. Verður þetta í fjórða skiptið sem þessi árlega hátíð fer fram, en kórónuveirufaraldurinn náði ekki að stöðva hátíðarhaldara á liðnu ári.
Á hátíðinni má sjá leikhús-, dans- og uppistandssýningar, ásamt sirkús-, kabarett-, drag-, tónlistar-, myndlistar- og kvikmyndasýningar til að nefna dæmi. Öll listform eru velkomin, og hafa t.a.m. húðflúrssýningar og sýndarveruleikasýningar átt sér stað á hátíðinni á liðnum árum. Hátíðin er ætluð sem stökkpallur fyrir nýtt listafólk til að koma sér á framfæri hérlendis sem og erlendis, en einnig fyrir þaulreynt listafólk til að prófa nýtt efni eða þróa sýningar áður en þær fara erlendis, t.d. á Edinborgar Fringe hátíðina í ágústmánuði.
„Á undanförnum árum hefur myndast alveg sérstök stemmning meðal þátttakenda og áhorfenda á Reykjavík Fringe, þar sem stuðningurinn og samkenndin ráða ríkjum. Það er mikið hlegið, mikil samvinna á sér stað milli listafólks og vinskapur, tengslamyndanir og sambönd hafa myndast, oft út fyrir landsteinana,“ samkvæmt Nönnu Gunnars, hátíðarstjórnanda.
Hátíðin er opin öllum. Ekki er gerð krafa um listræna menntun þátttakenda og ekkert aldurstakmark er. Ungt listafólk er sérstaklega hvatt til að sækja um, og RVK Youth Fringe miðar við að fá fleiri þátttakendur á aldursbilinu 13-19 ára með sín eigin verkefni.
Umsóknareyðublaðið er á ensku en í því er hægt að sækja um að taka þátt í allt að 6 hátíðum á Norðurlöndum. Það er gert með því að haka við viðkomandi hátíðir, en Reykjavík Fringe er hluti af samnorrænu samstarfi sem kallast Nordic Fringe Network. Í gegnum það er hægt að sækja um þátttöku á hátíðum í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi í ár.
„Það er margt óljóst ennþá hvernig hátíðin fer fram í sumar, þar sem við eigum eftir að sjá hversu margir mega koma saman, hvort fólk treysti sér að ferðast til landsins og hvaða svið hafa lifað faraldurinn af, en mörg verkanna fara fram á litlum börum og skemmtistöðum borgarinnar. En þar sem við náðum að setja hátíðina upp árið 2020 þá erum við bjartsýn á að þetta gangi upp aftur nú í ár, og við erum viss um að landsmenn þyrsti í lifandi afþreyingu yfir hásumarið,“ bætir Nanna við.
Umsóknarfrestur rennur út föstudaginn 15. janúar á miðnætti og hægt er að sækja um á vefsíðu hátíðarinnar: RVKfringe.is
Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing