Auglýsing

Uppistandshópurinn VHS frumsýnir annað kvöld glænýtt uppistand

Uppstandshópurinn VHS hefur notið mikilla vinsælda en fyrri sýning hópsins, Endurmenntun, gekk fyrir fullu húsi í Tjarnarbíó, Græna hattinum, Frystiklefanum á Rifi og á Kex Hostel haustið 2019. VHS samanstendur af þeim Vilhelm Neto, Hákoni Erni Helgasyni og Stefáni Ingvari Vigfússyni.

Sýningin var síðar sýnd á miðlum RÚV jólin 2019. Hópurinn stóð einnig að tveimur tilraunauppistöndum í Tjarnarbíó í janúar 2020 ásamt Fyndnustu mínum, Jakobi Birgis og Andra Ívars.

Í þetta sinn er það ætlun VHS að sprengja alla skala, væntingar og öll þök af öllum húsum og biðjast auðmjúklega forláts skyldi það ekki ganga eftir.

„Við þurftum að skella í lás vegna heimsfaraldursins eftir að hafa hlakkað til frumsýningar í marga mánuði. Það var mesta sorgarstund lífs míns. Það er gleði og dúndurspenna í okkur nú þegar við fáum loksins að sýna,“ segir Villi í samtali við Vísi

„Við byrjuðum að skrifa sýninguna í janúar, þegar við héldum viðburðinn Nýtt ár, nýtt grín í Tjarnarbíó. Þar var hópurinn að prófa brandara í nýju sýninguna. Það er miskunnarlaust að prufa brandara í fyrsta sinn fyrir framan áhorfendur en það borgaði sig í þessu tilviki,“ segir Hákon.

Sýningarnar fara fram 4. júlí, 25. júlí og 15. ágúst og miðasalan fer fram á tix.is

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing