Bein útsending frá úrslitum Söngvakeppninnar í Laugardalshöll hófst á Rúv núna klukkan 19:45. Þar ræðst hvaða lag keppir fyrir Íslands hönd í Eurovision í Hollandi í maí.
Hatari og norska sveitin Keiino, sem hlaut flest símaatkvæði áhorfenda í Eurovision í fyrra, stíga á svið og einnig er von á leynigestum. Kynnar eru Fannar Sveinsson, Benedikt Valsson og Björg Magnúsdóttir en útsendingu stýrir Salóme Þorkelsdóttir.
Dómnefnd hefur helmings vægi á móti símakosningu almennings í fyrri kosningu kvöldsins. Eftir þá kosningu fara tvö efstu lögin í svokallað einvígi og þá mun símakosningin ráða úrslitum. Eins og í fyrra munu lögin tvö halda þeim atkvæðum sem þau fá í fyrri kosningunni frá dómnefnd og símakosningu áhorfenda. Stigahæsta lag kvöldsins mun verða framlag Íslands í Eurovision.