„Inspired by Iceland býður fólki um allan heim að losa um uppsafnaða streitu vegna Covid-19 með því að láta öskur sitt hljóma á Íslandi,“ segir í tilkynningu frá Íslandsstofu. Herferðin hefur hlotið nafnið „Losaðu þig við það“ eða „Let It Out“.
Í tilkynningunni segir einnig að hátölurum hafi verið komið fyrir viðsvegar um landið og þar sé hægt að taka öskrin upp með aðstoð tölvu eða síma á vefsíðunni www.lookslikeyouneediceland.com næstu tvær vikur.
Hátalararnir eru staðsettir í Viðey í Reykjavík, Festarfjall við Grindavík, í nágrenni Skógarfoss, skammt utan við Djúpavog, við rætur Snæfellsjökuls, við Kálfshamarsvík og við Rauðasand á Vestfjörðum.
„Við viljum vekja athygli tilvonandi ferðamanna á að það er tiltölulega öruggt að ferðast til Íslands og að hér er hægt að upplifa fallega náttúru í fámenni, en það er eitthvað sem við teljum að fólk muni sækjast eftir þegar áhugi fólks á að ferðast eykst á ný.
„Það er mikilvægt að vekja athygli á kostum Íslands núna. Fólk er að láta sig dreyma um þá tíma þegar það verður hægt að ferðast aftur og jafnvel leggja á ráðin um ferðalög í náinni framtíð. Við viljum vera hluti af því samtali. Streitulosun er viðeigandi við þessar kringumstæður en gefur okkur jafnframt tækifæri á sama tíma til að sýna landið og minna á kosti Íslands,“ segir Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu.