Leikkonan Vala Kristín hefur vakið mikla athygli undanfarin ár fyrir flotta frammistöðu í leiklistarsenunni hér á landi. Hún leikur meðal annars í þáttaröðinni Venjulegt Fólk sem hefur verið að slá í gegn undanfarið.
Vala var gestur Einkalífsins á Vísi þar sem hún ræddi leiklistina, lífið og átröskunina sem hún glímdi við á yngri árum.
„Ég byrja veikjast í níunda bekk. Þá er maður einhvern veginn að skríða inn í kynþroska og að er ýmislegt sem breytist hjá manni þá. Eftir á að hyggja hugsa ég að þetta hafi verið mín leið til að ná stjórn á lífinu,“ segir Vala.
„Það voru aðrar áskoranir í mínu lífi sem ég hafði enga stjórn á. Mín átröskun var þannig að þetta var ég að reyna stjórna einhverju. Ég stjórna ekki umhverfinu mínu en ég stjórna eigin líkama. Við þetta blandast hugmynd um fegurð, samkeppni og samskipti kynjanna um að vera flottur. Þetta var síðan ástand sem þróaðist og varð að ótrúlega miklum kvíða og stjórnsemi gagnvart mat og holdafari sem heltók stóran kafla af lífinu mínu. Ég var samt mjög fúnkerandi og naut alveg lífsins upp að miklu marki.“
Sjáðu þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.